135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[22:15]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að við eigum að fagna frumvarpinu sem hér er verið að flytja en það gengur ekki nógu langt. Það er skref í rétta átt en ekki er verið að tryggja samkynhneigðum sömu réttindi að hjúskaparlögum. Þeir falla ekki undir hjúskaparlögin, það eru önnur lög. Það verða tvenn lög í landinu. Önnur lögin verða fyrir samkynhneigða og hin fyrir gagnkynhneigða og við munum enn hafa orðin „staðfest samvist“ í lögum. Það gufar ekki upp þannig að við erum ekki að ganga götuna til enda.

Við erum samt í forustu ríkja hvað varðar réttindi samkynhneigðra og það er gott. En ég tel að við hefðum átt að ganga alla leið núna. Það verður hugsanlega ekki samþykkt, ég átta mig á því að stjórnarflokkarnir hafa sameinast um að stíga þetta skref. Á sínum tíma steig Framsóknarflokkurinn mjög jákvætt skref. Við gengum ekki alla leið þá, við gerðum það ekki og ekki er heldur verið að ganga alla leið núna. Ég hef talað fyrir því að við göngum alla leið. Ég hef gert það áður og ég mun gera það áfram. Ég mun halda því merki á lofti þar til við höfum klárað þetta eins og hin ríkin sem ég nefndi hér áðan.