135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:39]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hálfvorkenni nú hv. þm. Karli V. Matthíassyni að tala hér um hvað hugsanlega ráðherrar Sjálfstæðisflokksins séu (KVM: Þakka þér fyrir samúðina, hún er mér mikils virði.) að hugsa í þessu máli. Ég get ekki ætlast til þess að hv. þm. Karl V. Matthíasson geti svarað fyrir ráðherra Sjálfstæðisflokksins þannig að mér finnst nú rétt að hann láti það alveg ógert. Þeir hafa talað. Forsætisráðherra hefur sagt að þetta álit sé illa grundað og rökin fátækleg og að ekki sé sérstök ástæða til þess að grípa til neinna aðgerða þeirra vegna. Það eru 44 dagar eftir af þeim fresti sem íslensk stjórnvöld hafa til þess að svara mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hvað þetta varðar og enn bólar ekki á neinni vinnu í þá veruna. Í orðum og ræðum hv. þm. Karls V. Matthíassonar varaformanns sjávarútvegsnefndar bendir ekkert til að unnið sé að því að koma með svör og viðbrögð fyrir þann frest sem gefinn er. Orð ráðherra Sjálfstæðisflokksins benda til þess að það eigi ekkert að gera með það. Þeir vilja halda óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfi þó svo að það brjóti gegn mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þeir munu reyna að verja óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi þó svo það brjóti sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Og mér er spurn: Ætlar Samfylkingin að þola þeim það? Ætlar hún bara svona að setja það í viðræðunefnd?

Ég krefst þess og ítreka kröfu mína, herra forseti, að formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Arnbjörg Sveinsdóttir, komi hér og (Forseti hringir.) geri grein fyrir því hvaða vinna er að fara fram formlega af hálfu sjávarútvegsnefndar og þá af hálfu Sjálfstæðisflokksins hvað þetta mál varðar.