135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:20]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Tilefni þessarar umræðu hér og framlagningu tillögu til þingsályktunar er að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna kvað upp álit sitt seint á síðasta ári um að fiskveiðistjórnarkerfið og lögin sem um það gilda hér á landi brjóti í bága við borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og séu jafnframt brot á mannréttindum.

Þetta hefur gefið mönnum tilefni til þess að benda enn og aftur á ýmsa þá galla sem gilda um fiskveiðistjórnarkerfið og þessi umræða ber þess keim.

Eins og rifjað hefur verið upp hér við þessa umræðu er nú liðinn nær aldarfjórðungur eða um það bil frá því að kvótakerfi var komið á sem slíku, árið 1984 ef ég man rétt. Ég held að þrátt fyrir vangaveltur og gagnrýni á það kerfi þá hefði verið hægt að skýra það út með skynsamlegum rökum að nauðsyn hafi verið að setja einhvers konar takmarkanir á fiskveiði Íslendinga vegna þess að gengið var á fiskstofna. Þannig að það mátti að mörgu leyti réttlæta kvótakerfið sem slíkt þó að það hafi að mörgu leyti verið gallað og engin sérstök sátt um það.

Árið 1991 var heimilað með lögum að selja, leigja eða veðsetja fiskkvótana. Þá var hið frjálsa framsal innleitt með þeim annmörkum og afleiðingum sem það hafði í för með sér og þeim miklu deilum sem hafa síðan árum saman staðið um þá ákvörðun og það fyrirkomulag.

Ég hef verið eindreginn andstæðingur þessara laga um hið frjálsa framsal alla tíð og er enn. Það er af pólitískum, siðferðislegum og lagalegum ástæðum. Ég er ekki einn um það, það hafa fjölmargir aðrir tekið þátt í því. Hv. þm. Jón Magnússon minntist hér á og vitnaði í lagaálit virtra sérfræðinga og lögfræðinga. Ég vil bæta við að mér fannst eiginlega mest um vert það álit sem held ég að hann hafi nú ekki getið um, þ.e. álit sem kom fram af hálfu prófessors Gauks Jörundssonar á sínum tíma þar sem fullyrt var að sú löggjöf, sem þá var sett og ég hef vitnað til, stæðist ekki stjórnarskrá.

Gerðar hafa verið margar atlögur að þessu kerfi á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er. Það hafa verið stofnaðir heilir stjórnmálaflokkar til þess að berjast fyrir afnámi þessa kerfis eða breytinga á því. Það hafa verið kveðnir upp dómar og málið hefur farið oftar en einu sinni til Hæstaréttar. Það hefur verið kosið til Alþingis margoft og þetta kerfi hefur haft mjög afdrifaríkar afleiðingar og áhrif fyrir atvinnu og byggðarlög vítt um landið.

En staðreyndin er sú sem við verðum auðvitað að horfast í augu við, að þrátt fyrir flokka, kosningar eða dóma og aðrar atlögur þá hefur það staðist. Það er enn þá í gildi vegna þess að það hefur notið meiri hluta fylgis hér á Alþingi og ég hygg að svo sé enn. Því miður, segi ég, en svo er enn. Við verðum auðvitað að horfast í augu við þá lýðræðislegu staðreynd að þetta kerfi hefur stuðst við meiri hluta á Alþingi.

Það verður líka að draga þá ályktun að sennilega hefur þjóðin, þegar hún hefur gengið til kosninga, sömuleiðis hafnað því að þessu kerfi væri bylt. Því miður hefur það verið niðurstaðan kosningar eftir kosningar að þeir flokkar sem hafa stutt þetta kerfi og staðið vörð um það, einkum og sér í lagi Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa fengið nægilega mikið fylgi til þess að viðhalda þessu kerfi. Það verð ég nú bara að segja vegna þess að menn verða að horfast í augu við staðreyndir og veruleikann sem þeir lifa við.

Ég er þeirrar skoðunar að þegar álit mannréttindanefndar birtist núna þá vefengi enginn að taka eigi það alvarlega. Ég held allir geri það. Ég held að enginn ætli, hvorki í stjórn né stjórnarandstöðu, að virða það að vettugi.

Ég vitnaði áðan í andsvari mínu í svör sem ég fékk frá hæstv. sjávarútvegsráðherra þegar hann var spurður um hvað liði aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Hann sagði alveg afdráttarlaust að álitið sem þarna er gefið út væri tekið alvarlega. Ríkisstjórnin tekur það alvarlega og hafinn er undirbúningur að svari við þessu áliti mannréttindanefndarinnar. Að því er unnið, eftir því sem ég best skil, af sérfræðingum í viðkomandi ráðuneyti.

Það er engin ástæða til að vefengja það. Það eru þær fréttir sem ég hef af þessu máli og það var staðfest af hæstv. ráðherra í þingræðu. Á þessu stigi málsins er það því ekki sanngjarnt að segja að þingið eigi að fara að skoða málið. Við eigum að geta fylgst með því en fyrst og fremst hlýtur að þurfa að skoða hin lagalegu og tæknilegu atriði sem felast í því þegar þetta álit er skoðað og hvernig bregðast á við því. Ég tel að ekkert sé óeðlilegt við þau vinnubrögð.

Það er undirbúningur sem er í gangi og ráðherrann hefur lýst því yfir að Alþingi verði greint frá því hver niðurstaðan af þessum undirbúningi verður þegar þar að kemur.

Ég vil þess vegna taka fram að efnislega er ég alveg sammála þessari þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu. Ég er sammála henni og hefði skrifað undir hana ef mér hefði boðist það. Mér þykir það sjálfsagt mál að Alþingi kveði upp úr með að það beri að hlíta þessari niðurstöðu og þessu áliti og það eigi að bregðast við því.

En ég hef hins vegar upplýst, og það ætti að vera hér í þingskjölum, að hæstv. ráðherra hefur nú þegar tilkynnt að þessum niðurstöðum verði hlítt, hverjar svo sem þær verða efnislega. Það verður brugðist við þeim. Að því leyti tel ég að þessi tillaga, sem er góðra gjalda verð, sé barn síns mánaðar, janúar eða febrúar. Í millitíðinni hafa fengist svör við því að það verði orðið við því sem hér er efnislega farið fram á í þessari tillögu.

Ég vil aðeins bregðast við fullyrðingum sem fram komu hér áðan um að Samfylkingin hafi samþykkt að þola þetta ástand eins og það er, þ.e. að hún hafi hugsanlega breytt um skoðun. Ég hef ekki breytt um skoðun á þessum lögum. Ég er jafnandvígur þessu fyrirkomulagi á fiskveiðistjórnarkerfinu eins og áður. Samfylkingin hefur líka haft sína stefnu í þessum málum og hefur enn.

En við verðum bara að horfa á þann veruleika að hafa stofnað til ríkisstjórnar milli tveggja flokka. Annar þeirra hefur mikið fylgi, 36–37% þjóðarinnar. Hann hafnaði því að þessu kerfi yrði bylt að einhverjar róttækar breytingar yrðu gerðar. Til samstarfsins var gengið á þeim forsendum þannig að það er nú eins og annað í lífinu að það er ekki allt fengið með látum eða með því að lemja í borðið. Auðvitað er þetta mál ekki dautt. Við hljótum að halda því áfram sem viljum fá þessu breytt að breytingarnar verði. Ég á ekki von á því að það verði gert undir merkjum núverandi ríkisstjórnar jafnvel þó að Samfylkingin sé með í því ágæta stjórnarsamstarfi.

Mitt afdráttarlausa svar í þessum efnum er að það eigi að halda áfram þeirri baráttu sem háð hefur verið um að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Það á að opna það, taka tillit til atvinnufrelsis og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og gera margar aðrar breytingar á þessu kerfi. Það tekur tíma. Það er náttúrlega erfitt að vinda ofan af vitleysunni og ranglætinu eftir 24 eða 25 ára löggjöf og fyrirkomulag. Það eru margir hagsmunir sem þar er í húfi og þá verða menn að nálgast þetta viðfangsefni af skynsemi og átta sig á að það gerist ekkert strax á morgun þannig að það verði róttækar breytingar eða bylting. Það er bara einfaldlega fólgið í því að maður horfi raunsætt á stöðuna eins og hún er. (Forseti hringir.)