135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:45]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef minnst á það áður í umræðunni og ítreka það enn að hér er verið að tala um fiskveiðistjórnarkerfið sem var sérstakt eftirlæti Framsóknarflokksins í 12 ár á meðan hann var í ríkisstjórn og hann stóð þéttan vörð um það. Það er út af fyrir sig athyglisvert ef Framsóknarflokkurinn er tilbúinn til þess núna að brjóta niður kerfi sem hann hefur staðið vörð um svo lengi með einföldum yfirlýsingum af þessu tagi í þinginu. Ég veit ekki hvort ég á að taka það alvarlega.

Hv. þingmaður spyr: Hvað felst í þessum undirbúningi? Ég játa að mér er ekki kunnugt um það, ég hef ekki verið upplýstur um það, ég hef ekki verið tekinn inn í það starf en hæstv. ráðherra svaraði mér í byrjun apríl á þá leið að svarið væri í undirbúningi. Það væri ekki bara tæknilegs eðlis, það væri líka pólitísk ákvörðun vegna þess að álit mannréttindanefndarinnar felur í sér gagnrýni á hinu pólitíska sviði sem Framsóknarflokkurinn hefur verið að búa til og staðið vörð um allan þennan tíma.