135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:18]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Síðast þegar ég vissi þá var nú skoðanafrelsi í þessu landi og menn mega segja skoðun sína. Menn tala ekki niður til Hæstaréttar eða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna eða einhverra annarra þótt þeir séu ekki sömu skoðunar og sú nefnd eða dómstólar eða hv. þm. Jón Bjarnason.

Eins og ég nefndi áðan þá eru um það bil 100 ríki sem hafa undirritað þennan sáttmála, 75 þeirra hafa fengið álit á sig. Það er allur gangur á því hvernig með það hefur verið farið. En það sem ég er að reyna að kasta hér fram í umræðuna er að það er ekkert einsdæmi að þjóðir fái álit eins og þetta á sig.

Úr því að hér var nefndur meiri og minni hluti þá er það þannig að oft eru minnihlutaákvæði bæði hjá Hæstarétti og eins og í þessu tilviki mannréttindanefndarinnar. Ég er í þessu tilviki (Forseti hringir.) ekki sammála meiri hlutanum. Með því er ég ekki að kasta rýrð á nefndina, alls ekki. Ég er bara ósammála henni.