135. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2008.

franskar herþotur.

[13:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég var ekki að spyrja um utanríkispólitík Frakka. Ég var að spyrja um utanríkis- og öryggismál Íslendinga og okkar stefnu. Þetta er vissulega óundirbúin fyrirspurn en það á ekki að þýða að málið sé óundirbúið af hálfu stjórnvalda. Það er skrýtið ef ekki liggja fyrir svör við hlutum af því tagi sem ég spurði um og varða reglur um meðferð vopna sem þessar flugvélar ætla að bera. Þær eru innan lofthelginnar. Þær eru væntanlega á jörðu niðri í Keflavík í augnablikinu vopnaðar bæði skotvopnum og eldflaugum. Og mér finnst skipta máli að fyrir liggi hvernig takmarkanir verði settar á umferð þeirra og meðferð.

Ég verð líka að segja að það sem hér er á ferðinni, og hæstv. utanríkisráðherra kallar Evrópuvæðingu, er auðvitað ekkert annað en NATO-væðing og vígvæðing íslenskra utanríkis- og öryggismála. Vill þá hæstv. utanríkisráðherra líka svara því, úr því að NATO metur það fullnægjandi að svona eftirlit sé í tvær til þrjár vikur í senn ársfjórðungslega, hver á að passa upp á okkur þess á milli.? Getur hæstv. ráðherra með einhverjum hætti útskýrt fyrir okkur hér og almenningi í landinu tilganginn með þessu rugli?