135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

erfðabreytt matvæli.

585. mál
[14:46]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég vil þakka umræðuna, að þetta mál skuli vera tekið hér upp, ég held að full ástæða sé til. Ég vil minna á að við áttum, nokkrir fulltrúar frá Alþingi, sæti á Norðurlandaráðsþingi 15. apríl sl. þar sem farið var yfir mál er varða erfðabreytt matvæli, upplýsingagjöf eins og hér er rædd. Þar kom m.a. fram að u.þ.b. 20% af svínafóðri í Danmörku eru erfðabreytt.

Ég vil taka undir það að upplýsingar vantar og fræðslu og ekki síst hvað það varðar að erfðabreytt matvæli eru ekki endilega hættuleg fyrir menn og dýr. Við náum oft og tíðum meiri uppskeru og minnkum stórkostlega notkun á eiturefnum sem eru okkur hættuleg. Við þurfum að fá fræðslu og upplýsingar um þetta mál og þess vegna tek ég undir þessa fyrirspurn.