135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

viðbrögð við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

592. mál
[14:56]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Eins og hv. þingmaður rakti hefur þetta mál komið allnokkrum sinnum til umræðu hér í þinginu og sumt af því sem sagt verður, af mér og öðrum, er kannski einhver endurtekning á því sama efni.

Ég lýsti því yfir strax á fyrsta degi að þetta álit yrði tekið alvarlega. Ég vakti að vísu athygli á því að við hefðum kannski ekki þjóðréttarlegar skuldbindingar í þessum efnum. Við erum hins vegar aðilar að þessum sáttmála og þess vegna tökum við þetta álit alvarlega og því verður að sjálfsögðu svarað í tæka tíð og með fullnægjandi hætti.

Ég hef að vísu miklar efasemdir um röksemdafærsluna sem að baki býr. Hún er nokkuð rýr en að svo miklu leyti sem hægt er að draga fram einhverja röksemdafærslu á bak við niðurstöðu nefndarinnar hef ég miklar efasemdir um hana. Það breytir í sjálfu sér engu um álitið. Það er komið, það er endanlegt og því verður ekkert breytt. Svar okkar Íslendinga, á hvaða veg sem það verður, mun í sjálfu sér ekki gera það að verkum að álitinu verði breytt. Mannréttindanefndin kallar hins vegar eftir viðbrögðum stjórnvalda og þau munu líta dagsins ljós og verða kunngerð nefndinni á réttum tíma með réttum hætti.

Eins og hv. þingmaður nefndi verður svarið að vera sambland af fræðilegri vinnu og pólitísku svari. Verið er að vinna að fræðilega hlutanum en að því máli hafa komið allmargir aðilar sem við höfum kallað eftir aðstoð frá. Sú vinna hefur tekið sinn tíma og verður að liggja til grundvallar. En svarið er líka pólitískt og verður ríkisstjórnin að bera þá ábyrgð. Erindinu er beint til ríkisstjórnarinnar eðli málsins samkvæmt og hún verður að hafa forustu um það að komast að hinni pólitísku niðurstöðu.

Hv. þingmaður spyr hvort við munum æskja samstarfs við alla stjórnmálaflokka svo að sem best sátt náist um viðbrögð Íslands við áliti nefndarinnar. Það hljómar vel en við vitum, að fenginni reynslu í rúmlega 20 ár, að miklar deilur hafa staðið um þessi mál. Sumir segja reyndar að þær deilur séu ekki eins háværar og þær hafa oft og tíðum verið áður. Ég ætla út af fyrir sig ekki að leggja neinn dóm á það. Aðalatriðið er að við vitum að í þessu máli er mikill ágreiningur ríkjandi í þjóðfélaginu milli stjórnmálamanna og jafnvel innan stjórnmálaflokka og ætla ég ekki að ímynda mér að við getum náð einhverri sátt eða samkomulagi um það hvernig svara eigi þessu áliti.

Ég geri t.d. ráð fyrir að þeir hv. þingmenn í Frjálslynda flokkunum sem hafa verið að kalla eftir því að leggja niður kvótakerfið, eins og hv. þingmaður, formaður flokksins, gerði fyrir fáeinum dögum, eigi ekki samleið með flokki hv. fyrirspyrjanda sem hefur verið dyggur talsmaður framseljanlegra aflaheimilda og kvótakerfis. Ég geri því ekki ráð fyrir því að við mundum ná saman um málið þrátt fyrir góðan vilja, jafnvel ekki þó að við mundum setjast niður undir þeirri forskrift að öll dýrin í skóginum skuli nú vera vinir.

Á vettvangi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis hefur hins vegar farið fram heilmikil vinna. Formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis hefur haft um það forustu að kalla fyrir ýmsa fulltrúa úr atvinnulífinu, úr þjóðfélaginu, fræðimenn og fleiri, til þess að varpa ljósi á málið. Þar hafa stjórnmálaflokkarnir átt ágætan samstarfsvettvang um málið. Ég vona að svar ríkisstjórnarinnar liggi fyrir áður en þingið fer heim um mánaðamótin og að ég geti gert grein fyrir niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.