135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar, Lýðheilsustöð.

[10:37]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til að byrja á því að vitna til orða hæstv. heilbrigðisráðherra sem hann viðhafði í tengslum við stefnuræðu forsætisráðherra. Þá segir hæstv. heilbrigðisráðherra, með leyfi forseta:

„Breyttir tímar kalla á nýjar lausnir. Við verðum á hverjum tíma að nálgast viðfangsefnin með opnum hug. Við þurfum að hafa að leiðarljósi að finna lausnir sem nýtast best fólkinu í landinu. Ég mun sem ráðherra heilbrigðismála leitast við að ná sem víðtækastri sátt um þennan mikilvæga málaflokk. Við erum í grundvallaratriðum sammála um meginmarkmiðin.“

Þetta segir hæstv. heilbrigðisráðherra við þessar aðstæður. Nú velti ég því fyrir mér hvort vinnubrögð hæstv. ráðherra eru í samræmi við þessi orð, m.a. hvað varðar það að hann lagði fram frumvarp í gær um sjúkratryggingar sem samkvæmt orðum formanns heilbrigðisnefndar á að afgreiða á þessum örfáu dögum sem eftir eru þangað til þingi lýkur í vor. Nú er þetta mál ekki á dagskrá þingsins í dag. Það gefur mér von um að hæstv. ráðherra, ríkisstjórn og stjórn þingsins hafi tekið ákvörðun um að breyta afstöðu sinni í þessu máli og fara að tillögu okkar framsóknarmanna. Hún er sú að þetta mál verði ekki afgreitt fyrr en í haust en við gerum ekki athugasemdir við að mælt yrði fyrir því núna.

Annað sem ég nefni í leiðinni varðar vinnubrögð hæstv. ráðherra og ýmsar stofnanir ríkisins. Þar hefur hann verið að ryðja forstöðumönnum úr vegi. Nýjasta dæmið er Lýðheilsustöð. Þar beitir hæstv. ráðherra 23. gr. starfsmannalaganna þannig að hann auglýsir þessa stöðu og ég spyr: Er fjármálaráðuneytið, sem fer með þessi lög, sammála þessari túlkun hæstv. ráðherra? Er hér um stefnubreytingu að ræða hvað varðar túlkun greinarinnar? Hversu oft hefur henni verið beitt (Forseti hringir.) með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerir hér?