135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

framlag Íslands til umhverfismála.

[10:52]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að mikið er fjallað um Ísland í mörgum fjölmiðlum erlendis og hefur verið í allan vetur. Um sumt höfum við ekki notið sannmælis, sérstaklega í umfjöllun um fjármálalíf og efnahagsmál, en að mörgu öðru leyti höfum við gert það. Ábyrgari fjölmiðlar hafa fjallað af mikilli skynsemi um efnahags- og fjármál og einnig um umhverfis- og orkumál. Var ánægjulegt að sjá umrædda umfjöllun í hinu fræga tímariti Newsweek um stöðuna hvað varðar umhverfis- og orkumálin.

Þó að mitt nafn hafi verið dregið þar sérstaklega fram er verið að fjalla um Ísland og stöðu Íslands og lít ég á hana sem eins konar viðurkenningu á því sem hér hefur verið gert á undanförnum árum. Ég get glatt hv. þm. Ögmund Jónasson með því að ég tek þetta ekki sérstaklega til mín, frammíkall hans um að forsætisráðherra sé orðinn græningi.

Að öllu gamni slepptu hefur mjög margt áunnist í þessum málum á undanförnum árum. Það er mjög gott ef heimsbyggðin tekur eftir því að — þrátt fyrir deilur hér innan lands um þessi mál og þrátt fyrir vandann sem víða er við að fást hvað varðar umhverfis- og orkumál í útlöndum — staða okkar er auðvitað alveg einstök, og Framsóknarflokkurinn má alveg eiga sinn heiður af því eins og allir aðrir sem að þeim málum hafa komið á undanförnum árum.

Við eigum að hefja okkur yfir flokkadeilurnar þegar mál liggja svona fyrir. Við megum vera ánægð með það að landið okkar er talið skara fram úr hvað varðar nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og við eigum að færa þann boðskap sem víðast.

Eins og sjá mátti í samtali í gærkvöldi í sjónvarpinu, samtali norrænu forsætisráðherranna, snerist umræðan nánast eingöngu um umhverfis- og orkumál og hvernig við ætlum að höndla Kyoto-framhaldið og ráðstefnuna í Kaupmannahöfn á næsta ári. Við munum ekki skorast undan ábyrgð.