135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

[11:33]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna orðum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og lýsa því yfir að mér þótti ræða hans afar málefnaleg þó að ég væri kannski ekki endilega sammála öllu sem hann sagði. Það skiptir nefnilega ákaflega miklu máli þegar við erum að ræða heilbrigðismálin að þau séu rædd á yfirvegaðan og málefnalegan hátt. Málaflokkurinn er viðkvæmur og hann snertir marga. Því vil ég líka leyfa mér að segja það hér, herra forseti, að málflutningur af því tagi sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafði í frammi er málinu ekki til framdráttar og það er að mínu mati allt of oft sem menn viðhafa það í þessum ræðustól að reyna að halda því fram að hvítt sé svart eins og hv. þingmaður gerði.

Hér er því haldið fram fullum fetum að einkavæðing Landspítalans standi fyrir dyrum. Það er ekkert — ekkert sem gefur til kynna að það sé fram undan og ég vil nota þetta tækifæri til að vísa því alfarið á bug. En eins og ég segi, hér koma menn upp í ræðustól og halda því fram að hvítt sé svart og það er málinu ekki til framdráttar.

Það eru nokkur atriði, grundvallaratriði sem verða að vera á hreinu í umræðu um heilbrigðismál og hafa komið fram í ræðum stjórnarþingmanna. Í fyrsta lagi er algert grundvallaratriði að veita þjónustu í heilbrigðiskerfinu óháð efnahag og það er algert grundvallaratriði að það sé eitt þjónustukerfi fyrir alla landsmenn og að fólk geti ekki borgað sig fram fyrir.

Að lokum, þó að ég hafi stuttan tíma hér eftir, herra forseti, þá vil ég segja að það er erfitt að ræða heilbrigðiskerfið án þess að koma inn á kaup og kjör kvennastéttanna vegna þess að það eru kvennastéttirnar sem bera heilbrigðiskerfið á Íslandi uppi og það er alveg klárt í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar að það stendur fyrir dyrum að bæta kaup og kjör kvennastéttanna í heilbrigðiskerfinu og þá er ég ekki bara að tala um háskólamenntuðu (Forseti hringir.) konurnar heldur ekki síður þær lægst launuðu. Að þessu þarf að huga líkt og annarri umgerð í (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfinu.