135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[19:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var mjög athyglisvert að heyra ræðu hv. þm. Gunnars Svavarssonar, formanns fjárlaganefndar, leiðtoga Samfylkingarinnar hér í þinginu hvað fjármál ríkisins varðar.

Honum finnst upphæð upp á 400–500 milljarða kr. ekki skipta neinu máli í fjárlagadæmi ríkisins. (Gripið fram í.) Hann segir að ekki sé víst að allt innheimtist o.s.frv. og kemur með gildishlaðnar ágiskanir. Það má svo sem velta því fyrir sér varðandi skatta almennt, um ógoldna skatta einstaklinga sem jafnvel ekki hafa efni á að borga skattana sína, að það er ekki víst að það skili sér allt.

Ekki leyfum við okkur þó að nota það orðbragð. Það kemur samt fram í umsögn meiri hlutans að ekki megi gefa sér að þetta sé allt tapað fé. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar geti bara haldið því blákalt fram að afskrifa á einu bretti 400–500 milljarða kr. án þess að það komi fjárlögum eða fjárhag ríkisins við. Þá er nú aldeilis stórt höggvið spaðið ef þetta skiptir ekki máli.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er það í raun og veru svo? Hefur hv. þingmaður ekki lesið (Forseti hringir.) umsögn Alþýðusambandsins? Hefur hann ekki lesið minnisblað frá ríkisskattstjóra þar sem varað (Forseti hringir.) er eindregið við því að þetta sé samþykkt og talið mikið óréttlætismál að gera það með þessum hætti?