135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samráð um lífeyrismál.

[10:54]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra um tilburði hennar til að vinna að samstöðu og taka upp hér lífeyrisréttindamál sem hafa verið rædd á opinberum vettvangi upp á síðkastið og reyndar í langan tíma. Þegar hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir tók mál sitt fyrir hér í þinginu kom hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir því mjög skýrt á framfæri að þingmenn úr öllum flokkum ættu að koma að því að leysa þetta mál og undirstrikaði sérstaklega að þingmenn úr öllum flokkum hefðu komið að því að leggja málið fyrir þingið. Það er rétt sem sagt hefur verið að það voru þingmenn úr Samfylkingunni, Vinstri grænum og úr Frjálslynda flokknum ásamt þáverandi stjórnarflokkum, Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, þannig að það voru þingmenn úr öllum flokkum sem stóðu að þessu.

Mér finnst því mjög ankannalegt, virðulegur forseti, að hæstv. utanríkisráðherra kjósi að fara efnislega í málið rétt fyrir þinglok og koma með þrjú efnisatriði. Í fyrsta lagi að það eigi að afnema svokallaðar tvöfaldar greiðslur, í öðru lagi að það eigi færa réttindin nær almenna markaðnum og í þriðja lagi að það eigi að skoða afturvirkni laganna.

Ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hún telji að með þessari orðræðu á opinberum vettvangi sé verið að vinna að samstöðu í málinu. Eins og ég skynja þetta mál er verið að vinna að sundrungu í málinu. Ef allir flokkar eiga að koma að lausninni þýðir ekkert að einhver einn flokkur fari fram í einhverja efnislega umræðu um málið korteri áður en þinginu lýkur, það gengur ekki upp.

Ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig í ósköpunum á þetta háttalag að leiða til einhverrar samstöðu um þetta mál?