135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:20]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að fulltrúi Samfylkingarinnar telur þetta ósköp eðlileg vinnubrögð og hefur ekkert við það að athuga að formaður heilbrigðisnefndar sendi út mál til umsagnar á meðan við vitum öll að þetta er algerlega óeðlilegt. Það er líka ljóst að í þingsköpunum stendur að það er nefndin sem tekur málið til sín þegar búið er að mæla fyrir því og sendir það til umsagnar. (Gripið fram í: Hún mun gera það.) Hins vegar hefur það nú gerst að formaður heilbrigðisnefndar, hv. þm. Ásta Möller, hefur sent málið til umsagnar og ég geri ráð fyrir því að það hafi verið sent frá hv. þingmanni í krafti þess að hv. þingmaður er formaður heilbrigðisnefndar. Það er ekki þannig að þingmenn séu að senda einhver prívatmál til umsagnar hist og her. Það eru alls ekki vinnubrögðin sem tíðkast í þinginu þannig að þetta er algerlega óeðlilegt.

Ég tel að forseti verði að úrskurða um það þannig að við heyrum það, þingheimur, hvort fara eigi að þingsköpum eða ekki. Ég óska eftir því að hæstv. forseti úrskurði um það.