135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

þjóðlendur.

386. mál
[21:22]
Hlusta

Flm. (Bjarni Harðarson) (F):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá góðu umræðu sem hefur verið um frumvarpið þó að hún hafi verið svolítið sundurlaus. Við vorum fyrirvaralaust send heim um daginn þegar við vildum ljúka umræðunni á kvöldfundi, en fáum að ljúka henni núna.

Hins sakna ég mjög við báðar þessar umræður að sætin hér að baki mér, sæti framkvæmdarvaldsins, ríkisstjórnarinnar, eru auð og mætti ætla af umræðunni, sem hlýtur að vera vegvísir um vilja Alþingis ef þingið starfar lýðræðislega, að eining sé um málið og það fari hér í gegnum þingið. Ég vona svo sannarlega að svo sé en hef samt lítils háttar grunsemdir um að í raun og veru sé um það að ræða að þeir sem eru andsnúnir málinu láti sig algerlega vanta við umræðuna en muni síðan koma til skjalanna þegar kemur að atkvæðagreiðslu ef til þess kemur yfir höfuð.

Ég vil byrja á því að taka undir það sem hér hefur komið fram, og mjög mikilvægt er að halda því til haga, að við erum með þessu máli að koma hlutum í það horf sem var vilji Alþingis við samþykkt hinna upphaflegu þjóðlendulaga. Það er ekkert nýmæli að breyta þurfi lögum til að ná fram upphaflegum markmiðum með lagasetningunni, það er alveg ljóst að stórfelld eignaupptaka var ekki upphaflegt markmið og það var heldur ekki markmiðið að setja eignarréttinn á Íslandi í óvissu. Það er mikilvægt að þeim þætti sé til haga haldið að það að eignarréttur sé óviss, það að eigendur þinglýstra eigna geti ekki gengið að því sem vísu að það sem þeir eiga í dag eigi þeir á morgun, er eitt mikilvægasta atriðið í réttarríki okkar. Þetta er það sem hefur einkennt lönd þar sem stjórnarfar hefur verið gott og raunar hafa alþjóðlegar stofnanir sett upp kvarða yfir það hversu tryggur eignarrétturinn er og þar höfum við Íslendingar sem betur fer verið frekar ofarlega, langt í frá í fyrsta sæti, og sjálfsagt spila þjóðlendumál þar inn í — við höfum verið í tíunda sæti, að talið hefur verið, á þessum kvörðum undanfarin ár. En í löndum þar sem hvað mest fátækt ríkir og spilling er mikil, þar sem stjórnarfar er hvað verst, þar sem ríkir hálfgert óaldarfyrirkomulag, hefur eignarrétturinn verið mjög ótraustur.

Ég sakna þess líka að fleiri af okkar góðu lögfræðingum taki ekki þátt í umræðunni. Ég hygg, án þess að ég hafi í handraðanum hvaða próf hver þingmaður er með, að margir þingmenn séu lögfræðingar, en aðeins einn lögfræðingur hefur tekið þátt í þessari umræðu, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. Þetta er einmitt mál sem kemur mjög inn á grundvallaratriði réttarríkisins og grundvallaratriði lögfræðinnar: Hvað er eðlilegt að ríkisvaldið geti gengið nærri réttindum einstaklinga, réttindum borgaranna í landinu? Sjálfur er ég ekki lögfræðingur en hef af sumum verið talinn, og kannski ekki alveg út í loftið, einhvers konar draugafræðingur, og ég held að í þessu máli sé ákveðinn draugagangur sem er ekki óalgengur í pólitík, sem er sá að gamlar hugmyndir, sem við héldum að væru algjörlega burtreknar og úreltar, ganga aftur. Við losnum ekki við þær. Þó að við séum búin að gera upp við grunnhugmyndina, okkur hafi þótt hún röng, ganga þessar hugmyndir aftur eins og draugar inn í nútímasamfélag. Hér sjáum við dæmi um það hvernig gamlar royalistahugmyndir, um að konungurinn eigi allt, renna aftur inn í það róttækasta og versta í sósíalismanum, alræðiskenninguna um að ríkið eigi allt — þetta eru hugmyndirnar sem ganga aftur í þjóðlendumálunum og í raun og veru er hægt að rekja hugmyndasögu þjóðlendumálanna aftur til þeirra manna sem töluðu um miðbik 20. aldar fyrir einhvers konar þjóðnýtingu á landi.

Sú lagaframkvæmd sem nú er viðhöfð í þjóðlendumálum er ekki hafin yfir allan vafa hjá lögfræðingum þessa lands eða í dómum. Ég vil þar sérstaklega minna á sératkvæði eins hæstaréttardómara, Ólafs Barkar Þorvaldssonar, í dómi Hæstaréttar frá árinu 2007 þar sem hann gerir að umfjöllunarefni að hann telji að Hæstiréttur geri strangari kröfur til sönnunarfærslu um eignarrétt á fasteignum en rétt væri að gera og finna megi fordæmi fyrir að hafi verið gert. Það lagafrumvarp sem hér liggur fyrir tekur einmitt á þessu atriði, það er einfaldlega að færa sönnunarbyrði þess sem krefst þinglýstrar eignar annars aðila á kröfuhafa frá kröfuþola, og það er í samræmi við almenna lagatúlkun eins og kemur fram í sératkvæði Ólafs Barkar — og fjölmargir aðrir lögfræðingar hafa raunar fjallað um þetta í opinberri umræðu því að mikið hefur verið fjallað um þjóðlendumál í landinu á undanförnum árum.

Þetta er, eins og ég vék að, hófsöm krafa, þetta er ekki krafa um að hætt verði við öll þjóðlendumál eins og mér hefði verið skapi næst að flytja hér í þinginu. Ég veit að gagnvart mörgum af þeim bændum sem hafa staðið í þessu stríði þykir mönnum skammt gengið með þessu en þetta er samt sem áður grundvallaratriði til þess að draga úr því óréttlæti sem nú ríkir.

Það er annað sem frumvarpið mun færa okkur, það mun spara ríkissjóði mikið fé. Kostnaður við þjóðlendumálin hleypur á tugum milljóna og tilfellið er að kostnaður við þau hefur farið fram úr fjárlögum á undanförnum árum og þó hefur rannsókn mála alls ekki verið fullnægjandi. Á það hafa fræðimenn bent, fleiri en einn, að alls ekki sé fullleitað í öllum þeim aragrúa skjala sem til er, enda að leita uppi öll skjöl fyrir allt landið, eins og þarf í þessu tilfelli þar sem þetta snertir nánast allar landjarðir á Íslandi, eða allar jarðir sem eiga land að hálendisbrúninni — jarðir í mínum heimasveitum sleppa helst, okkar Flóamanna, sem eru líka litlar eins og allt er hjá okkur í Flóanum.

Ef ríkið hættir að gera kröfu inn á þinglýst lönd manna sparar það stórlega mikið fé við þessa rannsókn og við málarekstur allan. Þetta væri því ekki bara bændum til hagsbóta heldur líka samfélaginu öllu því að tilfellið er að þeir landvinningar sem ríkið hefur haft af því að gera þessar kröfur eru afskaplega litlir, þeir eru minni en svo að ríkið hefði getað keypt þau lönd af mönnum fyrir minna fé en það hefur varið í þennan óþarfa, óvinsæla og óréttláta málatilbúnað. Hagsmunir ríkisins af því að fara þessa leið eru alls engir, hagsmunir þess væru einmitt að styðja þessa réttarbót og að Alþingi samþykkti þessa réttarbót sem þjónar ekki bara hagsmunum bænda heldur líka hagsmunum ríkisins.

Þá langar mig, í lok þessarar umræðu, að víkja aðeins að hagsmunum þeirra sem oft er reynt að halda fram að hafi andstæða hagsmuni við jarðeigendur, þ.e. að hagsmunum hinna landlausu einstaklinga í landinu, okkar sem eigum ekki jarðir. Í mínum huga er það skýrt að hagsmunir landlausra Íslendinga eru ekki þeir að ríkið nái löndum af bændum. Í fyrsta lagi eignast landlausir Íslendingar ekki landið þó að ríkið nái að slá hrammi sínum yfir það. Í öðru lagi eru þetta, eins og ég vék að áðan, svo litlir landvinningar, þetta eru fyrst og fremst ófriðarmálaferli þar sem menn þurfa að verja eigur sínar með kjafti og klóm en lokaniðurstaðan hjá Hæstarétti hefur í langflestum tilvikum verið sú að ásælni ríkisins hefur verið óréttmæt og það má velta því fyrir sér hvað slík óréttmæt ásælni — hversu langt bil er á milli þess að vera með ásælni af því tagi og þess að reyna að ná hlutum til sín ófrjálsri hendi, bilið þar á milli er mjög naumt og bitamunur en ekki fjár.

Hinn landlausi almenningur hefur ákveðna hagsmuni og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vék einmitt að því hér áðan varðandi eignarréttinn. Það er mjög brýnt úrlausnarefni að skilgreina með markvissari og betri hætti hvar mörk eignarréttarins liggja. Allir lögfræðingar eru sammála um að eignarréttur á landi er ekki sambærilegur við eignarrétt á t.d. lausum hlut eins og þessu glasi sem ég held hér á í hendi, sem ég má í sjálfu sér ef ég ætti það — ég býst reyndar við að Alþingi eigi þetta glas — gera hvað sem er við, engum dettur í hug að svo megi nokkur maður fara með eign eins og land. Mjög ríkar skyldur eru lagðar á landeigendur og landið heldur með vissum hætti áfram að vera sameign allrar þjóðarinnar. Spurningin sem varpað var fram hér áðan í ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, úr hinni gömlu fundaherferð kratanna á sínum tíma Hver á Ísland? — Íslendingar eiga auðvitað Ísland saman. Landeigandi, sem er vörslumaður landsins með sínum landamerkjum, hefur ekki leyfi til að gera hvað sem er við þessar náttúruperlur eða til að hefta umgengni eða nýta það með hvaða hætti sem er. Um það gilda lög sem almenningur kemur að að samþykkja og um það gilda reglur og samskipti við náttúruverndaryfirvöld og fleiri aðila og þessar reglur þurfum við að skerpa, sérstaklega þegar kemur að umgengni um landið og rétti landeigenda til þess að setja upp girðingar, leggja vegi og annað slíkt. Þetta verður að vera gert í meiri almennri sátt þannig að landið haldi áfram að vera eign okkar allra. En við þurfum að virða séreignarréttinn á jörðunum, við þurfum að virða þinglýst landamerki, þau landamerki sem hafa verið grundvöllur fyrir skattheimtu öldum saman, konungs og seinna lýðveldisins á hendur borgurunum. Það er algerlega ófært að slíkur eignarréttur sé dreginn í efa eins og gert hefur verið með framkvæmd þjóðlendulaga og það frumvarp sem hér liggur frammi mundi bæta mjög úr þeirri réttarstöðu.