135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

bætt kjör umönnunarstétta.

[14:01]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að það er viðkvæmt að ræða um kjarasamninga þegar þeir eru í bígerð en hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni hafa leyft sér að gera það og það með jafnbröttum hætti og ég gat um áðan. Það er bara hæstv. jafnréttismálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sem tekur svona sterkt til orða og auðvitað ætlast þeir sem verið er að reyna að semja við til þess að staðið verði við stóru orðin.

Það kemur líka fram í stjórnarsáttmálanum að ríkisstjórnin stefni að því að minnka um helming launamun milli kynja hjá hinu opinbera. Það eru þessar stóru stéttir sem eru núna í þessari kjarasamningagerð. Ég átta mig á því að það er flókið fyrir hæstv. fjármálaráðherra að vera mjög aðdráttarlaus en það að segja að verið sé að vinna að þessu máli með einum eða öðrum hætti var ekki mjög lofandi. En ég vona svo sannarlega að ráðherrar (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið að gefa konum falskar vonir með því að tala svona bratt. Ég vona að það komi eitthvað gott út úr kjarasamningunum.