135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[14:54]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Frumvarp þetta gekk til allsherjarnefndar milli 2. og 3. umr. eins og þegar hefur komið fram. En meiri hluti nefndarinnar sá ekki tilefni til þess að gefa út framhaldsnefndarálit. Hins vegar vil ég áður en lengra er haldið geta þess að ég hef sem formaður nefndarinnar flutt eina minni háttar breytingartillögu sem liggur fyrir á sérstöku þingskjali, 985 þar sem um er að ræða orðalagsbreytingu sem ekki hefur neina efnislega eða á ekki hafa neinar efnislegar breytingar í för með sér. Þar er einungis lagt til að síðari málsliður 2. mgr. 2. gr. orðist svo:

„Einnig er óheimilt að nota orðin „neyðarnúmer“ og „neyðarsímanúmer“ ein og sér eða í orðasamböndum um aðra starfsemi hér á landi en lög þessi kveða á um.“

Og þar er eiginlega bara verið að breyta og í eða, ef ég man rétt. Þetta er bara prófarkalestur í rauninni.

En vegna ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar og þeirra sjónarmiða sem hann mælti fyrir og fram koma í framhaldsnefndaráliti hans og breytingartillögu vil ég geta þess að Neyðarlínan hf. hefur um allnokkurt skeið verið rekin sem hlutafélag. Það stafaði af því eins og menn þekkja upphaflega að ýmsir aðilar komu að þeim rekstri, tóku sig saman um þennan rekstur og stofnuðu um það hlutafélag, bæði opinberir aðilar og einkaaðilar.

Hv. þingmaður gat þess réttilega að eignarhlutanum er þannig fyrir komið í dag að ríkissjóður á 73,6%, Reykjavíkurborg 10,5%, Landsvirkjun 7,9% og Orkuveita Reykjavíkur 7,9%. Mér vitanlega hafa ekki verið uppi hugmyndir um að breyta þessu eða selja bréf eða færa þau á milli aðila. Ég þekki það ekki og það kom ekki fram í nefndarstörfum.

Það var eðlilegt að stofna um þetta hlutafélag í upphafi vegna þess að þar var verið að ná saman ýmsum aðilum að því verkefni og hlutafélagaformið er heppilegt form á slíkum rekstri þar sem fleiri en einn aðili koma saman. Ekki stendur til að breyta þessu. Reynslan af rekstrarforminu hefur verið góð. Ekkert hefur komið fram um að það hafi skapað vandræði í störfum Neyðarlínunnar að hafa þetta í hlutafélagaformi. Þess vegna taldi meiri hluti nefndarinnar enga ástæðu til að breyta fyrirkomulaginu.

Ef ákvörðun er tekin um að breyta þessu er vissulega hægt að skoða það. Hins vegar hefur ekki komið fram nein þörf eða nauðsyn á að breyta því. Þetta hefur reynst ágætlega og engin vandamál sem mér er kunnugt um hafa komið fram vegna þess að um hlutafélagaform er að ræða. Ég get því ekki tekið undir þá breytingartillögu sem hv. þm. Atli Gíslason leggur fram og mælt er fyrir.

Um þetta er í sjálfu sér ekki margt annað að segja. Aðrar athugasemdir hv. þm. Atla Gíslasonar lúta að mínu mati ekki sérstaklega að efnisatriðum frumvarpsins heldur fremur að fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga almennt. Ég held að ljóst sé að mikilvægt er, eins og kemur fram í 4. gr., að um samtengingu viðbragðsaðila sé að ræða, mikilvægt er að hafa þetta ákvæði þar inni. Ég sé ekki, þó að menn geti haft ýmsar skoðanir eins og kunnugt er á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga almennt, að það breyti nokkru um hvernig þetta frumvarp er sett fram. Ég sé ekki fyrir mér að við mundum taka út þá skyldu sem er gert ráð fyrir í frumvarpinu. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara nánar út í það mál heldur legg áherslu á að frumvarpið nái fram að ganga í því formi sem það er eftir 2. umr. með þó þeirri smávægilegu lagfæringu sem ég gerði tillögu um.