135. löggjafarþing — 105. fundur,  21. maí 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[18:29]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Það veldur mér auðvitað miklum vonbrigðum að sjónarmið Neyðarlínunnar skuli ekki ná fram að ganga hérna, ekki einu sinni málamiðlunartillaga sem gengur þó í þá veru sem ríkislögreglustjóri mælir með sem lykilaðili í almannavörnum, þ.e. um að ábyrgðin sé á valdsviði ríkisins.

Ég vil líka minna á það að fram komu ábendingar í athugasemdum Sambands íslenskra sveitarfélaga um skipun nefndar — það var viðbót við 8. gr. — þar sem þessi ábyrgð var sett á rétta aðila. Það er því alveg sama hvert litið er, það er kredda sem ræður afstöðu ríkisstjórnarinnar í málinu, frjálsræðiskredda, „af því bara“-hlutafélag. Það gengur ekki.

Er þetta þá teikn um að við munum setja lögregluna í hlutafélag næst, er það næsta kredda? Þessi stofnun, neyðarsímsvörun, gegnir nánu og næstum beinu tengslahlutverki milli lögreglu og almennings, slökkviliðs og björgunarsveita. Þetta er gríðarlega mikilvæg stofnun sem á að heyra undir ríkið. Ég ítreka það hér sem komið hefur fram að það hafa ekki komið fram haldbær rök fyrir því, hv. formaður allsherjarnefndar, Birgir Ármannsson, af hverju það þarf að vera inni í hlutafélagi í samkeppnisformi eins og hlutafélagalögin mæla fyrir um. Af hverju er það? Af hverju má ekki fara eftir sjónarmiðum Neyðarlínunnar? Af hverju má ekki fara eftir sjónarmiðum æðsta yfirmanns lögreglumála eða næstæðsta, ríkislögreglustjóra? Hvað er það sem veldur þessu?

Það eina sem ég bið um er að fá haldbær rök. Er þá verið að teikna upp hlutafélagavæðingu lögreglunnar næst? Það er algjört lágmark fyrir almenning í landinu að það komi fram skýringar. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð deila um einkavæðingu og einkarekstur o.fl. á öllum sviðum þjóðlífsins en ég hélt að við værum sammála um að þjónusta sem snýr að almannaheillum, eins og lögregla, neyðarsvörun og annað, væri á ábyrgð og á vegum ríkisins. Fyrir mér er það alveg gjörsamlega augljóst.