135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[13:01]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við verðum að fara vel ofan í það hvers vegna þessi gríðarlegi munur er á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Menn gera sér grein fyrir því að þetta getur verið erfiðara fyrir sveitarfélög úti á landi. Það er ekkert launungarmál að Reykjavíkurborg hefur verið brautryðjandi í uppbyggingu leikskólastigsins og leikskólastigið sjálft er mjög ungt. Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi og án þess að á neinn sé hallað ætla ég að hrósa sérstaklega Reykjavíkurlistanum sáluga, ég held að hann eigi það skilið.

Leikskólagjöld geta verið mjög íþyngjandi fyrir ungar barnafjölskyldur. Ég hef verið talsmaður þess að skoða útgjöld barnafjölskyldna í heildarsamhengi — bilið í greiðsluþátttöku foreldra í tannlækningum er líka að vaxa. Við vitum hver staðan er í húsnæðismálum, vextir og verðbætur lána eru að verða meira íþyngjandi þar og afborganir hærri. Við þekkjum þetta allt. Ég hef verið talsmaður þess að þetta sé allt skoðað í samhengi og það verði skoðað hvernig þessum ungu barnafjölskyldum reiðir af vegna þess að allir sækjast eftir að leggja á þær gjöld. Það er lítið skoðað í heildarsamhengi, það sem tekið er á vegum sveitarstjórna og það sem tekið er á vegum ríkis. Það þurfum við að gera og leikskólagjöldin eiga svo sannarlega að vera þar inni. En eins og staðan er nú tel ég réttast að sveitarstjórnirnar ákveði þetta sjálfar.