135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[15:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég bið hv. þingmann að vera ekki með þvætting af því tagi að uppi sé einhver vafi á því að ég styðji sjálfsforræði og sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Að sjálfsögðu geri ég það enda er nú ekki mikið val í þeim efnum. Við erum einfaldlega lögbundin og samningsbundin til þess að gera það samkvæmt evrópskum sáttmálum o.s.frv.

Þetta er náttúrlega svona „stuðla að“. Þar með er Samfylkingin laus allra mála. (Gripið fram í.) Eru þá slík orð í kosningastefnuskrá og landsfundarsamþykktum orðin nánast merkingarlaus þar með? Hvernig eiga menn svo að stuðla að þessu, spyr hv. þingmaður. Já. Þegar menn komast í ríkisstjórn, fá völdin, eru þeir þá ekki komnir með tækin til þess? Þá dugar orðagjálfrið ekki lengur því að menn hafa enga afsökun. Það er heldur engin afsökun að þetta verkefni þurfi að vinnast með sveitarfélögum. Að sjálfsögðu. Annað hefur aldrei staðið til.

Ég veit ekki betur en Samfylkingin fari með málefni sveitarstjórna, hafi ráðherrann á því sviði. Af hverju er þá ekki nefnd komin í gang? Af hverju er Samfylkingin ekki búin að beita sér fyrir því að ríkið og sveitarfélögin setji niður nefnd? Það er, og hefur verið í sex ár, tillaga okkar að þetta verði unnið sem samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Og það er eðlilegt að hefja það með nefndarstarfi.

Hvað er verið að gaufa? Er ekki ársafmæli ríkisstjórnarinnar á morgun eða eitthvað svoleiðis? Það styttist í það. Hveitibrauðsdagarnir löngu búnir enda vinsældirnar á niðurleið. Það er eins gott fyrir Samfylkinguna að fara að reyna að gera eitthvað og ætla ekki að skýla sér á bak við orðagjálfur af þessu tagi.

Það þarf svo sem ekki alltaf að skjóta sér á bak við eitthvert veikt orðalag. Námsbækurnar áttu bara að verða ókeypis í framhaldsskólunum og fleiru fallegu er lofað hér, ókeypis skólamáltíðum o.s.frv. Ég ætla að hlífa mönnum við öllum þeim lestri sem mætti fara hér í sem eru hin gríðarlega umfangsmiklu kosningaloforð Samfylkingarinnar. Þau eiga náttúrlega eftir að vefjast mjög um fætur hennar ef svo heldur sem horfir að flokkurinn ætlar ekki einu sinni að sýna lit í því að þoka áfram málum af þessu tagi.