135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[00:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Er Samfylkingin að reyna að sýna okkur hvað í henni býr við stjórn Alþingis? Hvað er það sem blasir við þingheimi og hvað er það sem blasir við þjóðinni? Fullkomið skipulagsleysi, upplausnarástand, jafnvel brot á landslögum. Það er einfaldlega ekki farið að þeim reglum sem Alþingi hefur sett sjálft um þingsköp.

Ekki er síður ástæða til að vekja athygli á því að verið er að eyðileggja umræðu um mikilvægt mál. Þeir sem hafa hlýtt á umræðuna hér í dag hljóta að vera sammála um að talað hefur verið af þekkingu og viti um (Forseti hringir.) þetta mikilvæga mál. En ríkisstjórninni eða stjórnarmeirihlutanum hér á Alþingi (Forseti hringir.) er að takast að hleypa málinu í uppnám og eyðileggja þessa umræðu.