135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[10:48]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að leggja orð í belg í þessari umræðu vegna þess að hér hafa þingsköp verið túlkuð á þann veg að ekki sé heimilt að efna til næturfunda og vísað í orð hæstv. forseta Sturlu Böðvarssonar þegar hann var með framsögu fyrir breytingar á þingsköpum fyrir áramótin.

Mig langaði aðeins að vitna í orð hæstv. forseta en hann talar um að draga úr kvöld- og næturfundum þannig að þeir heyri helst til undantekninga.

Það hafa verið tveir næturfundir frá áramótum þannig að ég held að það megi fullyrða að það heyri til mikilla undantekninga að næturfundir séu haldnir. Þegar framsagan fór fram var gert ráð fyrir næturfundum. Það hefur breyst mikið. Tveir næturfundir geta nú vart talist mikið. En ég vil mótmæla þeirri túlkun (Forseti hringir.) að núverandi þingsköp heimili ekki næturfundi eins og glöggt kom fram í ræðu hæstv. forseta.