135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

staðan á fasteignamarkaðnum og Íbúðalánasjóður.

[12:23]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég fagna ummælum hennar um Íbúðalánasjóð svo langt sem þau ná. Hæstv. ráðherra á stuðning okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vísan ef hún vill standa fast á því að Íbúðalánasjóði verði ekki skipt upp og hann verði áfram sú kjölfesta og sú undirstaða fjármögnunar almennra íbúðarlána sem sjóðurinn hefur verið.

Því miður er ástæða til að hafa miklar áhyggjur. Við heyrðum í talsmanni Sjálfstæðisflokksins og ég er með útprent úr Morgunblaðinu frá sl. miðvikudegi þar sem vitnað er í orð hæstv. fjármálaráðherra á fundi með Samtökum iðnaðarins og þar segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Til að bregðast við því [þ.e. væntanlegu áliti ESA] má telja eðlilegt að farið verði út í það að skipta sjóðnum upp í tvo hluta. Annars vegar þann hluta sem lýtur að félagslegu húsnæði og skyldum málum og hins vegar hinn almenna hluta sem rekinn verður að fullu á markaðsgrundvelli.“

Hvað mundi það þýða mikla hækkun vaxta? Ég les miklu frekar út úr þessu djúpstæðan, pólitískan ágreining a.m.k. milli félagsmálaráðherra og Sjálfstæðisflokksins. Spurningin er: Hvar stendur Samfylkingin að öðru leyti? Ef Samfylkingin stendur í lappirnar í þessu máli þá er ekki þingmeirihluti fyrir því að rústa Íbúðalánasjóði. Svo einfalt er það mál. Þá verður Sjálfstæðisflokkurinn að bíta í það epli. Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra: Hafa stjórnvöld tekið upp viðræður við bankana vegna vaxtaendurskoðunardagsetninganna sem nú eru fram undan þar? Þar gæti verið þungt högg í vændum á þúsundir fjölskyldna sem tóku lán hjá bönkunum með rétti til endurskoðunar vaxtaákvæða.

Í þriðja lagi tek ég undir það sem ráðherra sagði um leigumarkaðinn og ég spyr: Hefur ríkisstjórnin rætt við sveitarfélögin um virka innkomu á fasteignamarkaðinn þannig að stærstu sveitarfélög landsins kaupi íbúðir og setji þær í leigu? Það gæti verið góð ráðstöfun bæði fyrir almenning og fasteignamarkaðinn. Aðgerðir þola ekki bið. Það verður að eyða óvissunni um Íbúðalánasjóð strax. Það á að koma fólki til aðstoðar áður en það lendir í þrot en ekki eftir að allt er hrunið.