135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til hrefnuveiða.

[12:57]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég treysti utanríkisráðherranum í ríkisstjórninni til að halda uppi málstað Íslands. Að sjálfsögðu geri ég það. (Gripið fram í: Er það?) Já. Hún skilur mætavel á hverju (Gripið fram í.) þessi ákvörðun byggist þó að hún sé af öðrum ástæðum ekki sammála (Gripið fram í.) því að út í þetta mál var farið. (Gripið fram í.) Þetta mál byggist á sjálfbærni. Þetta mál byggist á ábyrgum veiðum og rétti okkar til þess að nýta auðlindir hafsins. Um þetta eru skiptar skoðanir í öllum flokkum. Það kom fram í þessari umræðu (Gripið fram í: Nei.) að meira að segja í Samfylkingunni eru skiptar skoðanir því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði okkur nákvæmlega hver sín skoðun væri á þessu máli. Það má vera að þeir í Frjálslynda flokknum séu sammála í þessu eina máli. Er það svo, hv. þingmaður? (Gripið fram í: Já, og Sjálfstæðisflokknum.) Já, (Gripið fram í: Nú, er það svoleiðis, já.) Ég geri ráð fyrir því.

Að öllu gamni slepptu þá er hér um alvörumál að ræða. Við höfum legið undir gagnrýni erlendis út af þessu máli. Það er alveg rétt og það er um okkur fjallað með ýmsum hætti bæði út af þessu máli og öðrum, eins og við þekkjum. Það er okkar verkefni að leiðrétta rangfærslur, snúa við ranghugmyndum og gera umheiminum grein fyrir því hvað við erum (Gripið fram í.) hér að gera. Norðmenn hafa ekki beðið neinn skaða af sínum veiðum eins og hér hefur komið fram í umræðunni. Þeir hafa veitt hrefnu í mörg ár og hafa tekið á sig ýmsar ágjafir út af því. Gerum ekki meira úr þessu máli en efni standa til. Fjörutíu hrefnur fyrir innanlandsmarkaðinn, það er ekki stórt pólitískt mál.