135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:19]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera orð Alþýðusambands Íslands að mínum. Í áliti þess segir, með leyfi forseta:

„Aðstæður hér á landi eru aftur á móti með þeim hætti að óljóst er hvort hægt sé að tryggja samkeppni á orkumarkaði. Markaðurinn er lítill, fáir framleiðendur og eitt fyrirtæki hefur markaðsráðandi stöðu og stýrir því markaðnum. Kaupendur eru aftur á móti margir, sundurleitur hópur, flestir litlir og hafa því óveruleg áhrif á markaðinn.

Alþýðusambandið hefur því efasemdir um að hægt verði að tryggja samkeppni á orkumarkaði. Til þess að hún verði tryggð þarf að fara út í viðameiri aðgerðir en þær sem lýst er í frumvarpinu. Þær aðgerðir gætu reynst kostnaðarsamar og á endanum eru það heimilin og fyrirtækin í landinu sem borga þær.“

Í þessu er kjarni málsins fólginn. Nú höfum við ekki bara tillögurnar og hugmyndafræðina um það að samkeppnin eigi að lækka raforkuverð og gera allt betra í lífinu í þessum efnum, við höfum líka reynsluna. Hvað segir reynslan okkur? Ef einhver samkeppni hefur komist á á þessum markaði hefur hún ekki orðið til þess (Forseti hringir.) að lækka verðið, herra forseti.