135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:22]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Það fer kannski að síga á seinni hlutann í þessari umræðu okkar hér. Mig langaði til að drepa á nokkur atriði sem fram hafa komið í ræðum annarra hv. þingmanna og varða bæði málið sem slíkt og síðan fyrri ræðu mína hér í dag og nefndarálitið.

Það vakti athygli mína að hv. formaður umhverfisnefndar, Helgi Hjörvar, sagði í dag um þetta frumvarp að það væri söguleg sátt á milli þeirra tveggja pólitísku stefna sem ég útlistaði í fyrri ræðu minni í dag, stefnu þeirra sem annars vegar horfa til félagslegrar eignar á þessum framleiðslufyrirtækjum í raforku og hitaveitu sem og á auðlindinni sjálfri og svo hinna sem vilja láta markaðinn og samkeppnina leysa öll mál, þar á meðal þjónustuverkefni sveitarfélaganna. Ég verð að segja eins og er að það liggur við að Samfylkingin kalli allt sögulega sátt þegar menn ná að beygja sig í hnjáliðunum en falla ekki alveg á knén fyrir kröfum Sjálfstæðisflokksins í markaðsvæðingunni og einkavæðingunni.

Ég nefndi það að frumvarpið er mjög tvíátta, það stefnir til tveggja átta. Það er vissulega verið að setja ákveðnar girðingar umhverfis þær orkuauðlindir sem þegar eru í opinberri eigu. Punktur og basta, lengra nær það ekki, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir. Það er góðra gjalda vert og það er nauðsynlegt. Á sama tíma er hins vegar verið að bjóða upp á það að brytja þessi stóru öflugu fyrirtæki niður með kröfu um fyrirtækjalegan aðskilnað sem ekki hefur nein rök og alls ekki er krafist í Evrópuréttinum.

Ég nefndi það líka í nefndaráliti mínu að umfjöllun og vinnan við málið hefur verið eitt stórfellt undanhald allt frá upphafi. Það var nákvæmlega þannig í störfum nefndarinnar. Tekist var á um það áðan hvort girðingar hefðu verið færðar um eignarhaldið á auðlindunum eða ekki í störfum nefndarinnar. Ég vil benda á það að bara það atriði að hækka mörkin í 1. gr. frumvarpsins, úr 7 MW upp í 10, tekur tvær mjög öflugar virkjanir út fyrir þann verndarhring sem á að slá um eignir og auðlindir í opinberri eigu. Þessi breyting meiri hluta nefndarinnar, frá 7 MW upp í 10, í viðmiðuninni þýðir að við gildistöku laganna má selja Mjólkárvirkjun og það má selja Andakílsvirkjun. Það er með þessum rökum, herra forseti, sem við fullyrðum að í störfum nefndarinnar hefur virkilega verið slakað á þeim kröfum sem þó voru upphaflega settar í frumvarpinu.

Herra forseti. Á fyrstu síðu í nefndaráliti mínu kemur fram að þegar meiri hlutinn skilaði drögum sínum að nefndaráliti fyrir síðustu helgi var gerð krafa um uppskiptingu á öllum þessum fyrirtækjum, stórum sem smáum, bæði hitaveitum og rafveitum — það átti að skipta þessu öllu upp, smæstu fyrirtækjunum, Rafveitu Reyðarfjarðar sem þjónar um 600 íbúum, Orkuveitu Húsavíkur og Orkubúi Vestfjarða en þetta eru minnstu raforkufyrirtækin plús auðvitað hitaveiturnar sem eru út um allt land, 22, mala gull, skiluðu á síðasta ári 67 milljörðum kr. í þjóðarbúið í sparnaði miðað við það að kynda húseignir landsmanna með olíu. Það átti að skipta þessu öllu saman upp.

Meiri hlutinn sá að sér og eins og kemur fram í áliti mínu bakkaði hann á síðustu stundu með þessa kröfu sína og gerir nú ráð fyrir undanþágu frá uppskiptingu þar sem fjöldi íbúa á dreifiveitusvæði er innan við 10 þús. manns. Með því móti er minnstu hitaveitum og rafveitum í landinu hlíft við því óhagræði og þeim kostnaði sem af uppskiptingunni hlýst því að kostnaðurinn verður auðvitað umtalsverður.

Það kom greinilega fram í máli hv. þm. Helga Hjörvars í dag að við erum á tiltekinni vegferð sem hófst á árinu 2003 þegar markaðsvæðingin var lögleidd í raforkugeiranum. Við erum að taka skref númer tvö, þ.e. að gera kröfu um fyrirtækjalegan og stjórnunarlegan aðskilnað í öflugustu fyrirtækjunum. Næsta skref, ef ekki tekst með því móti að koma samkeppni á, með góðu eða illu, er hreinn eignarhaldslegur aðskilnaður sem Samkeppniseftirlitið hefur reyndar gert kröfu um og Verslunarráðið sem hér var nefnt áðan. Þetta er bara ákveðin vegferð sem við sjáum auðvitað alveg, vinstri græn, og það er dapurlegt að þurfa æ ofan í æ að hlusta á það hér að við séum að misskilja eitthvað, við þekkjum ekki hlutina og við séum svona frekar vitlaus í þessu öllu saman.

Vegna þeirra orða vil ég aðeins rifja upp hvernig vinna þessa máls hefur farið fram. Ég vil minna menn á að það lá vikum ef ekki mánuðum saman í þingflokki Sjálfstæðisflokksins — menn vissu af þessu frumvarpi, af þessari álitsgerð Eiríks Tómassonar, hún var komin á flot. Ég óskaði eftir henni ítrekað bæði hér úr ræðustól á Alþingi, við iðnaðarráðherra sjálfan og við fleiri aðila hér í þinginu en við fengum hana ekki. Ég óskaði líka ítrekað eftir því að frumvarpið yrði kynnt sérstaklega í þingflokki Vinstri grænna meðan það lá hjá Sjálfstæðisflokknum en það var ekki vogandi, vegna þess að átökin milli flokkanna voru svo mikil og þau hafa verið það alla tíð síðan og eru það alveg hreint til enda í þessu nefndarstarfi. Það er gott að það fer vel á með hv. þingmönnum, 1. þm. Sjálfstæðisflokksins í Norðaust. og hv. þingmanni Samfylkingarinnar, Katrínu Júlíusdóttur, hér í kvöld enda telja þau sig hafa náð ásættanlegri lendingu fyrir báða. Þetta er þessi sögulega sátt sem Helgi Hjörvar ræddi um.

Ég verð að segja eins og er að ég eins og hver annar dæmi hvor hefur haft betur, hvor þátturinn skyldi nú hafa haft betur, hinn félagslegi þáttur sem Samfylkingin segist standa fyrir eða markaðsþátturinn sem Sjálfstæðisflokkurinn segist standa fyrir? Það verður hver að dæma fyrir sig en fyrir mér er það alveg skýrt að þetta frumvarp ber í sér mikla hættu, getur eyðilagt og stokkað upp eignarhald og rekstur allra þessara fyrirtækja á örskömmum tíma. Ég sé ekki betur en að með kröfunni um aðskilnaðinn sé verið að búta þessi stóru fyrirtæki upp í neytendapakkningar fyrir markaðinn. Ég vísa enn og aftur til orða hv. þm. Samfylkingarinnar, Helga Hjörvars, hér í dag þegar hann sagði að það sem hefði komið í veg fyrir að einkaaðilar hefðu komist inn í þennan markað, hvað skyldi það hafa verið? Jú, það var einmitt það að fyrirtækin eru svo stór, þau eru svo öflug að einkaaðilarnir hafa ekki getað innbyrt þau. Þá er hér komin leiðin að búta þetta niður þannig að það falli vel að markaðnum til þess að einkaaðilar geti keypt þetta í bitum. Því lýsi ég vel í nefndaráliti mínu.

Kostnaðurinn af þessu mun verða umtalsverður. Það kemur fram í öllum þeim álitum sem nefndin fékk að kostnaðurinn við uppskiptinguna mun alla vega verða það mikill að meiri hluti hv. nefndar taldi ástæðu til að hlífa minnstu fyrirtækjunum við honum. En meiri hluti nefndarinnar sá enga ástæðu til að hlífa íbúum sem skipta við Orkuveitu Reykjavíkur og þeim sem skipta við Hitaveitu Suðurnesja við þessari kröfu um uppskiptingu á kostnaði. Frumvarpið mun leiða til þess að þessum tveimur stóru og öflugu fyrirtækjum, þar sem mikil samlegðaráhrif hafa komið fram á undanförnum árum, verður að skipta hvoru fyrir sig í í það minnsta þrjú aðskilin fyrirtæki með þremur aðskildum stjórnum og með þremur aðskildum framkvæmdastjórum. Menn vita alveg að forstjórarnir og framkvæmdastjórarnir eru ekkert voðalega ódýrir í þessum rekstri og umtalsverður kostnaður mun verða við þessa tvöföldu ef ekki þreföldu yfirbyggingu.

Mig langar að nefna eitt atriði til viðbótar enn og aftur sem er Landsnet. Ég vek athygli á því að í nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar er ekki minnst á Landsnet, þar kemur orðið Landsnet ekki fyrir. Ég hef óskað eftir því, og mun óska eftir því við forseta, að málið verði tekið upp milli 2. og 3. umr. til þess einkanlega að ræða tvennt, Landsnet annars vegar og aðkomu Hitaveitu Suðurnesja hins vegar en enn fremur önnur smærri atriði.

Hv. formaður nefndarinnar nefndi hér áðan að 4. gr. væri merkingarlaus, hefði enga merkingu aðra en þá að tiltaka að þau fyrirtæki sem eiga Landsnet skuli alfarið vera í eigu ríkis, sveitarfélaga eða fyrirtækja að 51% í eignarhlutanum. Þingmaðurinn túlkar sem sagt þessa lagagrein þannig að hún sé að fjalla um eignarhald í þeim fyrirtækjum sem eiga Landsnet. Það er alveg rétt en það er bara helmingurinn af sögunni vegna þess að bæði í skýringum með þessari grein og í orðanna hljóðan er alveg skýrt að verið er að opna fyrir eignarhald einkaaðila þarna inni.

Ég vil vekja athygli á því að ég legg til að bráðabirgðaákvæði II í frumvarpinu verði fellt út, en þar segir, með leyfi forseta:

„Iðnaðarráðherra skal beita sér fyrir endurskoðun á sérlögum um orkufyrirtæki, þar sem m.a. verði tekið til skoðunar hvort hægt sé að fella þau brott að hluta eða öllu leyti. Við þá vinnu skal m.a. haft samráð við fjármálaráðherra og eigendur þeirra orkufyrirtækja sem fjallað er um í sérlögum.“

Það gilda sérlög, m.a. um Landsvirkjun, m.a. um Rarik, m.a. um Hitaveitu Suðurnesja og m.a. um Orkuveitu Reykjavíkur í þessu landi. Þarna er ríkisstjórnin að hvetja til þess að iðnaðarráðherra beiti sér fyrir því hvort ekki sé hægt að fella eitthvað af þessum lögum brott og koma þeim undir önnur almenn lög, þ.e. hlutafélagalögin. Ég legg eindregið til að þetta ákvæði verði fellt niður úr lögunum, ég tel það ástæðulaust. Ef eigendur þessara fyrirtækja vilja breyta þessum lögum þá gera þeir það með því að óska eftir því sjálfir.

Mig langar að nefna hér eitt sveitarfélag sem ekki hefur borið mikið á góma, það er Akranes sem sendi nefndinni álit. Í því áliti kemur m.a. fram að Akraneskaupstaður hefur efasemdir um að heimild sé til að takmarka ráðstöfunarrétt á eignarhlutum í fyrirtækjum sveitarfélaga án þess að fullar bætur fáist fyrir slíkar skerðingar. Þetta er ítrekun á því sem fram kemur í áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ég verð að segja eins og er að það er ámælisvert að hv. iðnaðarnefnd fékk ekki aðstöðu til að leita eftir mati á þessum ábendingum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Akraneskaupstaðar.