135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[23:39]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svarið. Annað atriði sem vakti athygli í ræðu hv. þingmanns var þegar hann kom að sölu Símans og þeim mistökum sem voru gerð þegar það fyrirtæki var einkavætt, sett á markað. Ég held ég hafi tekið rétt eftir að hv. þm. Gunnar Svavarsson hafi sagt að hann hefði talið að þá hefðu menn átt að halda í netið sjálft, halda í grunnnetið. Það er nákvæmlega það sem við höfum verið að tala fyrir í dag, talsmenn og þingmenn Vinstri grænna, að haldið verði í netið sjálft, að haldið verði fast í Landsnet, í flutningsnetið þar sem kerfisstjórnin og öryggið í raforkuflutningunum er tryggt.

Einu rökin sem hafa komið fram fyrir því að selja eigi það og skipta upp á sama hátt, veita möguleikum á að hleypa einkaaðilum inn í það upp að einhverju ákveðnu marki, eru tilvísun í dreifiveiturnar, að þar eigi sama regla að gilda. Ég tel þetta ekki aðeins rangt, ég tel þetta mjög hæpið og hættulegt.

Það var ekki fortíðin þar sem ég var að tala um martröðina, það var ekki nútíðin, hv. þingmaður, það var miklu frekar framtíðin vegna þess að einmitt þar sem flutningsfyrirtækin hafa verið einkavædd hafa menn vaknað upp við vondan draum í bullandi rafmagnsleysi vegna þess að öryggisþáttunum, viðhaldinu og uppbyggingunni hefur ekki verið sinnt nægilega vel, arðsemiskrafan hefur verið mikilvægari og kallað á öðrum sviðum.