135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[11:15]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er eiginlega mjög hissa á fyrri spurningunni hjá hv. þingmanni, sérstaklega miðað við ræðu hennar hér áðan. Auðvitað er það herkostnaðurinn af því að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli að halda þarf úti gjaldeyrisvarasjóði og að sá gjaldeyrisvarasjóður sé í einhverju samhengi við þær aðstæður sem uppi eru hverju sinni í alþjóðlegu efnahagslífi og tengist því sem umheimurinn hugsanlega ímyndar sér að geti gerst. Ég held að það sé bara hárrétt hjá hv. ræðumanni hér áðan, Árna Páli Árnasyni, það er herkostnaður af því. (Gripið fram í.) Það er alveg sama hvaða nafni menn kalla það, ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi sjálfur notað — ég ætla nú ekki að fara að vitna aftur rangt í ræðu hans, en ég held að það hafi verið efnislega það sama sem hann var að tala um í sinni ræðu, að kostnaður hlytist af því að taka þetta lán.

Varðandi það sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nefndi áðan, að ég hefði talað um sambærilegar aðstæður — ég held ég hafi ekki notað það orð, ég talaði um samstofna aðstæður sem væru komnar til af sömu ástæðum og að aðilar þyrftu hins vegar að bregðast við á mismunandi hátt vegna mismunandi aðstæðna heima fyrir. Hafi það átt að skiljast þannig að einhvers staðar væru sambærilega aðstæður þá er það ekki rétt en aðrar þjóðir eru að glíma við vandamál af sömu orsökum og við. Ég nefni sem dæmi Spán, Írland, húsnæðismarkaðinn í Bretlandi, danski seðlabankinn var að hækka vexti, ungverski seðlabankinn var að hækka vexti og síðan það atvinnuleysi sem menn sjá fyrir sér í þessum löndum að muni aukast og er þó, herra forseti, (Forseti hringir.) ekki einu sinni að spá atvinnuleysi hér af þeirri stærðargráðu sem minnst er í þessum löndum.