135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

fullgilding Palermó-samnings gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

493. mál
[12:52]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá utanríkisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og refsiréttarnefnd. Málið fór jafnframt til umsagnar og barst umsögn frá ríkissaksóknara.

Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York árið 2000. Megintilgangur samningsins er að stuðla að samvinnu milli ríkja með það að markmiði að berjast gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi með skilvirkum hætti. Því er nauðsynlegt að draga úr mismun á réttarkerfum sem torveldar samstarf ríkja og gera lágmarkskröfur til landsréttar aðildarríkjanna til að efla alþjóðlegt samstarf. Meðal þess sem aðildarríki samningsins skuldbinda sig til að gera refsivert í landsrétti sínum er þátttaka í skipulögðum glæpasamtökum, þvætti ávinnings af glæp, spilling og hindrun á framgangi réttvísinnar.

Nefndin bendir á að þrjár bókanir hafa þegar verið gerðar við samninginn og unnið er að fullgildingu tveggja þeirra hér á landi. Nefndin leggur áherslu á að þeirri vinnu verði hraðað eftir megni til að styrkja framkvæmd samningsins.

Nefndin vekur athygli á því að dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum en breytingarnar sem lagðar eru til leiða að hluta til af Palermó-samningnum. Það frumvarp er nú til meðferðar í allsherjarnefnd.

Með þessum orðum vil ég greina frá því að nefndin leggur til að þessi tillaga verði samþykkt.