135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

breyting á samningi um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum.

498. mál
[13:16]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu bókunar um breytingu á samningi um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum.

Nefndin stendur sameiginlega að álitinu og leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeim skýringum sem fram koma í nefndarálitinu á þingskjali 1064. Ég ætla stuttlega að geta þess að nefndin vekur athygli á því að á yfirstandandi þingi voru samþykkt lög nr. 159/2007, sem breyta siglingalögum og taka gildi 1. janúar 2009. Þessi lög gera Íslandi kleift að standa við skuldbindingar samkvæmt þeirri bókun sem hér er um að ræða. Jafnframt er bent á af nefndinni að án staðfestingar bókunarinnar væri Ísland áfram bundið af samþykktinni frá 1957, sem getið er um í nefndaráliti, gagnvart þeim ríkjum sem eru aðilar að henni, en hún takmarkar ábyrgð útgerðarmanna á sjóréttarkröfum mun meira en gildandi siglingalög gera ráð fyrir, sér í lagi eins og þau verða þegar breytingin frá 2007 hefur tekið gildi.

Að öðru leyti, með vísan í nefndarálitið, leggur utanríkismálanefnd til að tillagan verði samþykkt.