135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

538. mál
[14:10]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að velta fyrir sér hvaða eignir er hægt að kaupa af útibúi fjármálafyrirtækis sem er að gefast upp á að vera á staðnum. Hvaða eignir? Jú, húseignir. Það er ekki bannað að kaupa húseignir. Ég tel að þetta eigi að vera mjög skýrt og ekki eigi að opna á neinar undirmálsleiðir.

Eins og hv. þingmaður kom inn á er verið að endurskoða lög og umgjörð sparisjóðanna til að treysta stöðu þeirra, ekki til þess að hjálpa þeim að leggja sig niður eða verða keyptir upp. Ég hefði viljað að sú endurskoðun hefði verið komin inn í þingið. Hæstv. viðskiptaráðherra boðaði í ágætu útvarpsviðtali í ágúst sl. að þetta yrði sett í sérstaka flýtimeðferð.

Við sjáum þá miklu hringekju sem er í gangi: Kaupþing er að kaupa SPRON. SPRON er að breyta sér í hlutafélag. Aðrir sparisjóðir eru á ferðinni — yfirtaka eða kaupa sparisjóði vítt og breitt um landið — og komast þannig oft og tíðum, að mér finnst, á græðgislegan hátt yfir samfélagslegar eignir. Ég verð bara að segja eins og er: Ég treysti ekki þessu umhverfi og vildi að þessi mál yrðu skoðuð í stærra samhengi en ekki að Fjármálaeftirlitið og jákvæðar umsagnir stóru bankanna og fjármálafyrirtækjanna eigi að reka á eftir þessu. Ég legg því til, og ítreka það, að þessum orðum verði breytt þannig að ekki sé verið að fara á bak við einn eða neinn í þeim efnum.