135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

539. mál
[14:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Eins og kom fram hjá hv. framsögumanni, Ágústi Ólafi Ágústssyni, er ég á nefndarálitinu með fyrirvara og ég mun fara stuttlega í gegnum þá.

Eins og kom fram í máli hv. þingmanns er verið að herða og skerpa enn meira á lögum og reglum sem lúta að eftirliti og aðgerðum gegn peningaþvætti annars vegar og fjármögnun hryðjuverka hins vegar. Einkum er verið að skerpa á eftirliti og aðgerðum gegn einstaklingum og öðrum aðilum sem gætu hugsanlega tengst hryðjuverkum eða hryðjuverkasamtökum peningalega, þ.e. að veita fjármagn til þeirra og slíkt. Í huga mínum er þetta tvennt nokkuð óskyld mál. Annars vegar peningaþvættið þar sem menn eru ólöglega að fela gróða, að komast yfir gróða og fela hann með því að færa hann á milli landa, reikninga eða fjármálastofnana o.s.frv. Það er í sjálfu sér grafalvarlegt mál og sjálfsagt er að reynt verði að fyrirbyggja það á allan mögulegan hátt, ekki bara peningaþvætti á alþjóðlega vísu heldur vil ég að það nái einnig til peningaþvættis innan landanna sjálfra. Mér hefði þótt mjög fróðlegt ef legið hefðu fyrir upplýsingar um tilvik á peningaþvætti sem hafa komið til kasta íslenskra fjármálafyrirtækja eða íslenskra stjórnvalda, lögregluvalda, til að átta sig á því hvert umfang þessa máls er. Hvað varðar málið í heild, frumvarp til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þá hefur verið mjög erfitt að fá upplýsingar um inntak þess og hvað átt er við. Ég kem að því síðar.

Þegar verið er að setja svona ströng lög sem jaðra mjög við að ganga á rétt persónufrelsi manna finnst mér að mjög ríkur rökstuðningur þurfi að vera fyrir því að svo sé gert en segja ekki af því bara, að röksemdin sé að við erum aðilar að einhverju samkomulagi með öðrum þjóðum. Algild mannréttindi eru grundvöllur hvers samfélags. Í atkvæðagreiðslu nýverið hafnaði stjórnarmeirihlutinn því að setja orðið „mannréttindi“ inn í lög um grunnskóla, leikskóla og framhaldsskóla sem sýnir þó kannski táknrænt afstöðu Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar til mannréttindamála í raun þegar flutt var tillaga um að í leiðandi markmiðssetningu laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla kæmi orðið mannréttindi, en það var fellt. Engu að síður er hér einmitt verið að ganga á þetta.

Ég staldra sérstaklega við greinar þar sem verið er að tala um fjármögnun hryðjuverka og að herða aðkomu fjármálafyrirtækja og stofnana að því að skilgreina hvað séu hryðjuverk. Til dæmis er í 9. gr. frumvarpsins breyting við 12. gr. laganna sjálfra. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Breytist staða viðskiptamanns eftir að hann hefur verið tekinn í viðskipti þannig að hann teljist einstaklingur í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna á 1. mgr. jafnframt við. Skal þá þegar afla samþykkis frá yfirstjórn, sbr. b-lið 1. mgr., áður en viðskiptasambandi er haldið áfram.“ Fyrirsögn greinarinnar er síðan breytt svo: „Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.“

Ég krafðist þess í nefndinni að fá nákvæma útskýringu á því um hvað menn væru þarna að tala, að flokka einstaklinga í áhættuhóp í peningalegum viðskiptum vegna stjórnmálalegra tengsla. Það er athyglisvert að þessi umræða komi upp þegar verið er að opinbera hleranir íslenskra stjórnvalda á alþingismönnum og forustumönnum í íslensku samfélagi á þeirri forsendu að þeir hafa á þeim tíma líklega verið einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Mundi þetta þýða að þeir hv. þingmenn, sem á þeim tíma var hlerað hjá vegna þess að þeir voru hættulegir samfélaginu, mundu nú flokkast í þennan hóp: Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla? Mér er bara spurn þegar sett er svona opin setning. Það er ekki einu sinni svo að þeir séu skilgreindir hryðjuverkamenn, nei, þeir eru í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Eru það ekki ein af frummannréttindunum að mega bera sína stjórnmálalegu skoðun svo fremi sem hún sé byggð á grundvelli mannréttinda? Nei. Búið er að búa til hóp ríkja sem tekur að sér að skilgreina fyrir sitt leyti hvað eru hættulegir stjórnmálalegir hópar og hver eru hryðjuverkasamtök því að hérna er ítrekað talað um að koma í veg fyrir tengsl við hryðjuverkasamtök.

Ég spurði einnig að því í nefndinni — ég skoðaði listann yfir hryðjuverkasamtök sem bankar og fjármálaeftirlit eiga núna að vera með á borðinu hjá sér til að merkja við ef sá sem sækir um viðskipti við bankann gæti tengst einhverju af þessum hryðjuverkasamtökum, því að þeir eiga að gera það. Sú krafa er sett af fjármálafyrirtækjum að þau geri áreiðanleikakönnun á viðskiptavinum áður en til viðskipta er stofnað. Það var rétt svo að ekki kom til þess að bankarnir þyrftu að kalla til gamalt fólk sem búið er að vera í viðskiptum árum saman til að gera þessa áreiðanleikakönnun. Það átti að skylda alla til að koma inn til að hægt væri að gera áreiðanleikakönnun. Þetta er komið út í þvílíkar öfgar. Það var þó almenn skylda, eftir því sem ég skildi málið, að það átti fyrst og fremst við nýja viðskiptamenn en þó var hægt að endurskoða málið með ákveðna viðskiptamenn í huga ef grunur vaknaði að mati bankans, þ.e. ef staða viðskiptamanns breyttist. Yrðu þá ekki að vera einhverjar forsendur? Ætti maður þá ekki að geta fengið lista yfir hryðjuverkasamtökin sem miða á við? Ætti maður þá ekki að geta fengið lista yfir stjórnmálasamtök sem eru hættuleg? Ég spurði um þetta og fékk ekki svör.

Eins og við þekkjum eru víða um heim samtök, frelsissamtök og mannúðarsamtök sem starfa að staðbundnum málum en njóta ekki viðurkenningar Bandaríkjamanna sem eru leiðandi ríki í að flokka þjóðir niður eftir stjórnmálalegum tengslum. Ég verð að segja að 9. gr. get ég alls ekki stutt eða aðrar greinar sem lúta að opinni skilgreiningu á hryðjuverkasamtökum og stjórnmálalegum tengslum.

Vitnað var til þess að við værum aðili að alþjóðlegum hóp sem var skammstafaður FATF og við yrðum að fara að hans reglum. Ég fletti upp hvaða ríki eru í þessum hópi. Það er nokkur hópur, það eru 34 ríki sem eru þar aðilar en þau eru öll hluti af ákveðnum ríkjahópi. Þau mundu öll meira eða minna flokkast undir annaðhvort stórveldi sem skipta á milli sín heiminum, t.d. Bandaríkin og Kína, Rússland og slík lönd, og hins vegar eru þetta svokölluð lönd sem hafa grúppað sig saman annaðhvort í kringum Bandaríkin, Atlantshafsbandalagið eða einhverja slíka hagsmuni. Það er athyglisvert að eiginlega eru engin önnur ríki, hvorki í Asíu, Afríku eða Suður-Ameríku, aðilar að þessu. Þetta eru mörg einræðisríki sem hafa þó fallið Bandaríkjamönnum í geð en þarna eru oft starfandi frelsissamtök, mannúðarsamtök, sem sum af þeim ríkjum vildu flokka sem hryðjuverkasamtök eða óæskileg stjórnmálasamtök. Svona er heimurinn. Mér finnst þess vegna algerlega ólíðandi að við séum að setja galopnar heimildir fyrir fyrirtæki á markaði á Íslandi til að flokka einstaklinga í áhættuhópa vegna stjórnmálalegra tengsla eða hugsanlegra tengsla við hryðjuverk o.s.frv. Ég vil að sjálfsögðu koma í veg fyrir öll möguleg hryðjuverk en skilgreiningin á því hvað eru hryðjuverk og hvað eru óheppileg stjórnmálaleg tengsl hefur færst mjög í þá átt að ganga á persónurétt fólks. Eftir hin hryllilegu hryðjuverk og hamfarir í New York á sínum tíma virðist sem ríki hafi notfært sér að beita þeirri skilgreiningu á einstaklinga og samtök fólks án þess að það hefði nokkuð annað gegn sér en að falla ekki viðkomandi í geð. Sú er hættan þegar farið er inn með opnar heimildir, eins og hér er verið að ræða um, og samkvæmt þeirri heimild má nánast ganga út frá því að þegar hlerað var hjá þingmönnum á tímum kaldastríðsáranna, alþingismönnum og leiðtogum í menningar- og verkalýðshreyfingu Íslendinga, þá var hlerað hjá þeim á nákvæmlega þeim forsendum að þeir væru í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla og ekki eru mörg ár síðan. Hvernig vitum við hvernig þetta er í dag?

Frú forseti. Lög sem leyfa fyrirtækjum og eftirlitsstofnunum að skilgreina og vakta hverjir gætu tengst eða átt í samskiptum við einhver samtök sem hinir og þessir vilja flokka sem hryðjuverkasamtök, finnast mér vera allt of opin. Mér finnst dapurlegt að ekki skuli vera hægt að fá lista yfir þau samtök sem nú eru skilgreind sem hættuleg eða óæskileg af viðkomandi stjórnvöldum eða viðkomandi ríkjasamfélagi sem Íslendingar telja sig þurfa að hlýða með þessum lagasamþykktum. Sjálfsagt er að berjast gegn þeim samtökum sem eru hættuleg. En þá á það líka að vera mjög skýrt og fyrir því á að liggja af hálfu Íslendinga, löggjafanum eða slíkum aðila, að hafa þá samstillt að viðkomandi samtök séu hættuleg og því falli þau á svona lista en ekki að gefa eftir að þetta sé svona frjálst eins og hér er um að ræða.

Frú forseti. Þetta eru meginathugasemdir mínar við frumvarpið. Ég ítreka að ég tel mikilvægt að berjast gegn peningaþvætti, af hálfu innlendra aðila, innan lands sem erlendis, og það sé enginn undanskilinn í þeim efnum. Ég hefði talið æskilegt að fyrir lægi sem fylgiskjal með frumvarpinu listi, úttekt eða greinargerð um umfang þess sem hér er verið að taka á á þessari stundu og jafnframt þegar verið er að setja hert ákvæði gagnvart einstaklingi um hvort hann tengist hryðjuverkasamtökum eða stjórnmálalegum tengslum sem stjórnvöldum finnst óæskileg. Þá ætti að liggja fyrir nákvæm greinargerð og listi um það og því væri þá hægt að uppfæra hann árlega ef hann tæki breytingum eins og verið er að gera tillögur um. Verið er að gera tillögur um að fylgst sé með viðskiptavinunum og hvort þessi staða þeirra breytist frá ári til árs m.a. með tengslum við óæskileg stjórnmálasamtök. Því væri eins gott að við fengjum þennan lista árlega yfir þau stjórnmálasamtök í heiminum sem að mati íslenskra stjórnvalda eru svo hættuleg að fara þarf að beita einstaklingana lögreglueftirliti hvað þetta varðar.