135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

yfirlýsing frá forsætisráðherra.

[18:42]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef kosið að segja örfá orð varðandi yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra um þá frestun sem nú er augljóslega að verða á því að lagt verði fram frumvarp sem mælir fyrir bótum til þeirra einstaklinga sem urðu fyrir hroðalegum misgjörðum á Breiðavíkurheimilinu á því 17 ára tímabili sem um ræðir. Leitt hefur verið í ljós að börn sem vistuð voru á Breiðavíkurheimilinu þurftu að þola ofbeldi og illa meðferð. Ég batt við það nokkrar vonir í lok mars þegar hæstv. forsætisráðherra fylgdi úr hlaði skýrslu þeirri sem fjallar um Breiðavíkurheimilið að nú yrði undinn bráður bugur að því að tryggja að þeir einstaklingar sem í hlut eiga fengju þær bætur sem eðlilegt hlýtur að geta talist að þeirra bíði af hálfu opinberra aðila. Ég lýsi yfir vonbrigðum með að mat hæstv. forsætisráðherra á málinu í lok mars skuli ekki hafa gengið eftir og að enn skuli þurfa að bíða eftir þessum bótum. Að komið sé hreyfingu á tilfinningar og minningar sem þeir einstaklingar sem hér eiga í hlut búa yfir gerir það að verkum að það þarf að vinna hratt en það þarf líka að vinna vel.

Ég lýsi því yfir að ég treysti því að verið sé að vinna það vel að ekki komi að sök þó að þessir einstaklingar þurfi að bíða í tvo til þrjá mánuði í viðbót eftir úrlausn. Ég treysti því þá líka að sú úrlausn verði það góð að hún verði biðarinnar virði.