135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[21:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða eitt af þeim þremur málum sem liggja fyrir hv. Alþingi að því er varðar útlendinga, þ.e. atvinnuréttindi þeirra, síðan bíður framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda og þá stjórnarfrumvarp um útlendinga.

Ef ég man rétt eftir að hafa rennt yfir þessi frumvörp og ályktanir þá samanstendur þessi pakki af 120 blaðsíðum um efni sem snýr að innflytjendum og útlendingum. Það þarf svo sem engan að undra því þetta er talsvert mikið mál og eðlilegt að það sé rætt af yfirvegun og skoðað frá öllum hliðum.

Hæstv. forseti. Mig langar hins vegar til að minna á það að þegar við í Frjálslynda flokknum vöruðum við því að hingað kæmi mikill fjöldi innflytjenda á skömmum tíma vegna þess að það var lagt til að aflétta svokallaðri tímabundinni takmörkun sem okkur var heimilt að beita varðandi ESB-borgana þá þótti það mjög slæm latína, slæmt mál að við í Frjálslynda flokknum skyldum minnast á að það væri kannski eðlilegt fyrir okkur að nýta okkur aðlögunartímann. Ekki það að að sjálfsögðu mundum við undirgangast þessar reglur á komandi árum. En við lögðum það til á sínum tíma að við færum okkur hægt og skoðuðum þessi mál vel og þess vegna væri eðlilegt að við notuðum okkur aðlögunartíma til þess og við lögðum til að aðlögunartíminn yrði lengdur að því er komu borgara, frjálsa för launafólks til Íslands varðaði. Hér voru þá hins vegar miklir þenslu- og uppgangstímar, mikil atvinna, menn voru að byggja Kárahnjúkavirkjun o.fl. og mikið umleikis í íslensku þjóðfélagi. Menn töldu þá að skynsamlegt væri að viðhalda þeirri takmörkum sem við lögðum til sem væri í raun og veru bara stýring á því hversu miklum fjölda við gætum tekið við á stuttum tíma eða innan ákveðins tímabils.

Ég held samt, hæstv. forseti, að í ljósi reynslunnar hefði kannski verið skynsamlegt að áskilja sér fyrirvara að því er varðaði ESB-borgarana. Ríkisstjórnin tók hins vegar þá ákvörðun að viðhalda fyrirvaranum gagnvart tveimur ríkjum síðar, Búlgaríu og Rúmeníu ef ég man rétt, og nú erum við að ræða um útlendinga sem eru utan Evrópusambandsins. Mér finnst, hæstv. forseti, ef ég hef skilið hv. þingmann, framsögumann nefndarinnar rétt, að það þurfi að spyrja ákveðinna spurninga við þessa afgreiðslu.

Í fyrsta lagi er auðvitað sú grundvallarspurning að eins og stendur höfum við mikla stýringu á því hvaða fólk kemur til Íslands inn á vinnumarkaðinn eða til starfa ef þeir eru utan Evrópusambandsins, mjög þrönga stýringu. Það kunna að vera ástæður fyrir því að menn hafa svo þrönga skilgreiningu en mér finnst samt að menn eigi að gæta þess að innan þeirra heimilda sem er verið að setja í lög sé réttlæti og jafnrétti og ég spyr að því hvort ég hafi skilið það rétt að ef íþróttamenn koma til landsins og ráða sig hjá íþróttafélagi þá megi þeir fara á milli íþróttafélaga innan lands. Þetta eru atvinnumenn sem geta ráðið sig hjá einu félagi og farið svo til næsta félags. Hins vegar, ef ég skil málið rétt, ef venjulegir launamenn sem vinna hin og þessi nauðsynleg störf fyrir okkur í þjóðfélaginu, þá eigi þeir að una því samkvæmt þessari framsetningu að vera í vist hjá atvinnurekenda sínum í a.m.k. tvö ár. Ég spyr hvort þetta sé réttur skilningur. Er það réttur skilningur hjá mér að þeir sem fara í almenna vinnu hér á landi og koma frá ríkjum utan ESB-svæðisins megi ekki vinna fyrir aðra atvinnurekendur? Ég skildi mál hv. framsögumanns þannig að því fólki, sem kemur hingað til lands sem er eingöngu komið til að vinna og afla sér tekna, jafnvel til að geta sent meginhluta tekna sinna til fjölskyldu sinnar og vina í heimalandinu, sé bannað að vinna nema fyrir einn atvinnurekanda. Er það virkilega svo að menn ætli að setja þau takmörk á atvinnuréttindi þessa fólks að það megi ekki vinna átta eða tíu tíma hjá atvinnurekandanum sem hefur atvinnuleyfið og að því sé bannað að vinna á kvöldin eða vinna aðra uppbótarvinnu hvort sem það er á öðrum vinnutíma eða ekki? Eða er því bannað að taka aðra vinnu ef það er að vinna í fiskvinnslustöð og það er hráefnisskortur? Nær þetta til þess? Ég vil fá skýr svör við þessu. Ég skildi mál hv. þingmanns þannig að svona væri þetta. Er þá samjöfnuður á milli íþróttamannsins sem kemur og ræður sig í atvinnu hjá knattspyrnufélagi og annarra, má hann skipta um félag hvenær sem hann vill? Hver er þá reglan varðandi hina menntuðu? Er hún einhvers staðar mitt á milli eða er hún ekki með neinni kvöð nema að skipta um atvinnu eða bæta við sig atvinnu?

Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að þó að við í Frjálslynda flokknum höfum talað fyrir því að menn hefðu á sínum tíma þegar þenslan var í hámarki haft eitthvert skynsamlegt eftirlit og reynt að stjórna því hversu mörgum við tækjum við á skömmum tíma þá höfum við aldrei lagt til að fólki sem kæmi hingað til vinnu væri mismunað að neinu leyti þegar það væri komið inn í þjóðfélagið eða til vinnu. Mér finnst það mikið grundvallaratriði að það fólk sem hingað er komið, hvort sem það er innan við ESB eða utan við ESB njóti sambærilegra réttinda þegar hingað er komið og að því sé ekki mismunað.

Við vorum oft kallaðir rasistar og með rasistahugsjón í Frjálslynda flokknum þegar við vorum að ræða þessi mál og töldum okkur vera að ræða þau af skynsemi. Ég uni því ákaflega illa. En ég hef gjarnan viljað sjá til þess að fólk sem hingað kemur fengi að njóta réttinda sinna, fengi að njóta menntunar sinnar, fengi viðurkennd atvinnuréttindi sem það kemur með frá heimalandi sínu, hvort sem um er að ræða smiði, bifvélavirkja, kennara eða aðra. Smátt og smátt hefur þetta verið að lagast en þetta er samt ekki nægilega gott og nægilega skýrt og það liggur kannski helst í því að það eru svo lokaðir hópar sem vinna hér. Þetta eru hópar manna sem koma og vinna hjá ákveðnum fyrirtækjum og fá oft mjög takmarkaðar upplýsingar eða hafa fengið, þótt ég voni vissulega að það hafi batnað á undanförnum árum og sé að batna. Þessi löggjöf, m.a. um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, kemur vissulega til með að breyta og bæta réttarstöðu þeirra á komandi árum og mun efla það að menn sem stunda vinnu hér njóti réttinda sinna og nái að aðlagast. Og væntanlega ef þeir una hag sínum vel hér þá hafi þeir val um hvort þeir vilja setjast hér að eða fara heim þegar þeir hafa áætlun um það vegna fjölskylduhaga eða einhvers annars. Mér finnst ekki góður svipur á því, hæstv. forseti, að þegar fólk er komið inn til landsins þá mismunum við því. Mér finnst ekki góður svipur á því.

Það er svo annað pólitískt mál og pólitísk umræða, útlendingastefna Íslendinga gagnvart ESB og útlendingastefna Íslendinga fyrir fólk sem er utan ESB, fólk sem kemur frá Filippseyjum, Kína eða Indlandi. Menn hafa helst ekki viljað taka þessa umræðu í botn. Það er rosalega auðvelt að rétta upp hnefann og segja: Þú ert rasisti. Það er afskaplega auðvelt fyrir mótmælendur og þá sem hatast út í umræðuna að koma heim að dyrum manns og grýta eggjum í glugga og dyr. Það er ósköp auðveld leið þegar menn vilja ekki rökræða málin. Ég geri svo sem ekkert með það. Það er enginn vandi að þvo burt eggjarauðu. En það hefur oft skort á það að menn ræddu þessi mál af yfirvegun, farið í gegnum umræðuna af skynsemi án þess að ætla öðrum illt eða hafa illvilja til einhvers. Ég hafna þeirri umræðu ef hún snýr að okkur í Frjálslynda flokknum. En ég er líka tilbúinn að taka þátt í rökræðu um málefni innflytjenda og útlendinga alveg í botn ef menn vilja það. Ég kann þá sögu mjög vel. Ég er sjálfur giftur pólskri konu, þekki mjög vel til í samfélagi útlendinga á Íslandi og ég vil benda mönnum á, sem tala um það að í fiskvinnslunni á Íslandi séu útlendingar að vinna tímabundið, að það er orðin talsvert röng fullyrðing. Í fiskvinnslufyrirtækjunum á Íslandi vinna fjölmargir innflytjendur sem eru sestir að á Íslandi, eru fyrir löngu orðnir íslenskir ríkisborgarar, eiga hér hús og híbýli, börnin þeirra eru í skóla, þeir eiga tengdabörn, vini og ættingja vítt og breitt í íslensku þjóðfélagi. Ég þekki fjölda innflytjenda sem eru löngu orðnir íslenskir ríkisborgarar en hafa starfað árum saman í sömu fiskvinnslufyrirtækjunum og starfa þar enn. Það væri ákaflega fróðlegt ef einu sinni væri gerð raunhæf könnun á því hvar útlendingar hafa unnið, hversu lengi þeir hafa unnið, hversu margir eru búsettir á Íslandi, hvar þeir starfa o.s.frv. Við í Frjálslynda flokknum lögðum það til á sínum tíma að slík könnun væri unnin og menn skoðuðu það. Hversu margir hafa hreinlega sest að hjá okkur, eru löngu orðnir íslenskir ríkisborgarar og eru ekki á leiðinni í burtu? Hvaða framtíðardrauma hafa þeir og hvaða álit hafa þeir á því hvernig þeir hyggjast festa rætur í íslensku þjóðfélagi? Mönnum fannst þetta voða skrýtið, gerðu lítið úr því að það ætti að fara fram sérstök könnun meðal innflytjenda um hvert þeir vildu stefna, hvað þeir ættu mörg börn og hvort þeir hygðust taka fjölskyldu sína til sín o.s.frv. eða yfirleitt hvort við ættum að vita mikið um framtíðardrauma þeirra og þrár. En ég held að það hefði verið mjög gagnlegt fyrir okkur að gera þetta, þá hefðum við áttað okkur á því að talsverður hluti þess fólks sem hingað hefur komið á undanförnum árum og menn hafa talað um sem tímabundið vinnuafl hefur allt annað í huga en að dvelja hér í stuttan tíma. Margir þeirra eru ákveðnir í að dvelja hér lengi.

Ég þekki fólk sem hefur unnið það lengi á Íslandi að það fer bráðum að taka út lífeyrinn sinn og þá hugsar það sér jafnvel að fara til heimalandsins og lifa þar á þeim lífeyri sem það hefur unnið sér inn í íslenskum lífeyrissjóðum á íslenskum vinnumarkaði og njóta þess langa ævistarfs sem það hefur unnið í þjóðfélagi okkar, fyrir okkur í mörgum þeim störfum sem við vildum ekki vinna, bæði í fiskvinnslu og öðru. Mér finnst fólk vera vel að því komið, fólk sem hefur unnið hér í 20–30 ár í störfum sem Íslendingar hafa verið að yfirgefa. Það verður meira úr peningunum þess t.d. í Póllandi þegar það hættir hér störfum eftir 25 ára starf. Í Póllandi munu margir hverjir geta lifað ágætislífi af lífeyrisréttindunum sínum sem þeir eiga hér þó að þau dugi ekki til framfærslu á Íslandi. Margir innflytjendur hafa byggt sig upp eignalega og félagslega fyrir efri árin með því að stunda hér vinnu og við Íslendingar höfum notið þess að hafa þá í vinnu og með okkur í samfélaginu. Við höfum notið arðs af vinnu þeirra, það hefur greitt hér skatta og skyldur en oft og tíðum tekið lítið til sín af opinberri þjónustu, stundum mjög lítið.

Hæstv. forseti. Ég held að það sé tímabært að ræða þetta mál. Ég fagna því að þessi þrjú mál upp á 120 blaðsíður séu til afgreiðslu í Alþingi. Þetta er alveg tímabært og framkvæmdaáætlun um innflytjendur sýnir það einfaldlega að það sem menn voru að ræða á árinu 2006 og síðar fyrir kosningarnar 2007, átti alveg fyllilega rétt á að vera rætt. Hér er verið að setja inn í áætlun stjórnenda úr hverju þurfi að bæta og að hverju þurfi að huga fyrir framtíðina að því er varðar innflytjendur. Ég fagna því. Það var m.a. það sem við bentum á í umræðunum árið 2006.

En spurningarnar voru fyrst og fremst tvær, hæstv. forseti. Er það réttur skilningur að frumvarpið sé þannig úr garði gert að íþróttamenn megi skipta um atvinnurekanda þegar þeim dettur í hug og fara til næsta félags en verkamaðurinn megi það ekki og sé fangi vinnusamningsins við vinnuveitanda sinn í tvö ár? Látum það kannski vera, en er það virkilega þannig að hann megi ekki vinna hjá neinum öðrum ef hann vill bæta við sig vinnu? Er það réttur skilningur? Ég sé að hv. þingmaður hristir höfuðið og ég vænti þess að það þýði að ég skilji þetta ekki rétt, þ.e. að sá sem hafi vinnusamning og atvinnuleyfi hjá einum vinnuveitanda megi ekki vinna fyrir neinn annan þó að hann haldi áfram að vinna hjá sama vinnuveitanda en ég skildi orð hans þannig áðan að menn gætu ekki unnið hjá tveim vinnuveitendum. Ef svo er þá hef ég misskilið orð hv. þingmanns.

Spurningin er hvort hinn venjulegi launþegi megi fara til annars atvinnurekanda innan tveggja ára og hvort íþróttamaðurinn megi gera það, ég óska svara við henni.