135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:28]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn hefur lagst mjög harkalega gegn einkavæðingu — eins og hann kallar svo — í heilbrigðisrekstri og með hliðsjón af því að hv. þingmaður kemst að þeirri niðurstöðu að þetta frumvarp leiði til einkavæðingar finnst mér það skjóta skökku við að Framsóknarflokkurinn ætli ekki að berjast gegn því. Hann ætlar að sitja hjá og þar með greiða fyrir för þessa frumvarps.

Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um að í þessu frumvarpi er ekkert sem mun leiða til einkavæðingar og það er alveg ljóst af hálfu Samfylkingarinnar að hún mun ekki fallast á neina einkavæðingu. Það er líka alveg ljóst að í þessu frumvarpi er í gadda slegið að sjúklingar munu áfram njóta þeirrar þjónustu sem þeir þurfa á að halda óháð efnahag, það er lykilatriði í þessu frumvarpi.

Ég vil svo rifja það upp að það var Framsóknarflokkurinn sem árið 1995 steig fyrstu skrefin varðandi einkavæðingu á heilbrigðisþjónustu. Það var heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins sem leyfði t.d. að sett yrði upp sérstakt fyrirtæki í kringum tæknifrjóvgunina, Art Medica, og það var líka Framsóknarflokkurinn sem kom sérhæfingu og bæklunarlækningum með vissum hætti í hönd félagasamtaka. Það skref var jákvætt, ég studdi það á þeim tíma alveg eins og ég styð þau skref sem eru stigin í þessu frumvarpi varðandi slíkan þátt. En það kalla ég ekki einkavæðingu, það er alveg ljóst. Hér er ekki verið að fara inn á braut einkavæðingar, það er rangt hjá hv. þingmanni, enda kemur það fram að þingmaðurinn trúir ekki sínum eigin orðum vegna þess að hún telur ekki þörf á því að greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi.