135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[11:24]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að átta mig á hvað það er sem hv. þingmaður setur sig á móti. Ef maður fer ofan í nefndarálitið og greinargerð með frumvarpinu eru ákveðin hugtök sem lýsa því heilbrigðiskerfi sem við erum með og viljum viðhalda. Við viljum t.d. að fjármagn til heilbrigðisþjónustu taki mið af þörf og þar á meðal er kostnaðargreining. Kostnaðargreining á þjónustunni á sér stað að mjög takmörkuðu leyti hér á landi, hún er komin miklu lengra erlendis, og eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er að stuðla að kostnaðargreiningu í heilbrigðisþjónustunni. Það er félagslegt heilbrigðiskerfi og við viljum halda því áfram. Við erum með félagslegt heilbrigðiskerfi sem er að mestu greitt af opinberu fé, hér á landi er ein minnsta greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðisþjónustu í heiminum. Það er jafn aðgangur fólks óháð efnahag, ekki er heimilt að kaupa sig fram fyrir.

Hvað af þessum atriðum setur hv. þingmaður sig á móti? Hvað er það sem hún vill ef ekki þetta? Þar til viðbótar stöndum við frammi fyrir því að aukið fé fer til heilbrigðisþjónustu, við sjáum í sjálfu sér ekki eftir því, það er pólitísk ákvörðun. Við erum með eitt hæsta framlag til heilbrigðisþjónustu í heiminum, við erum í fjórða sæti þrátt fyrir að við erum ein yngsta þjóðin í Evrópu. Við viljum nota þær aðferðir sem þekktar eru til að kostnaðargreina þjónustuna, til að fá meira út úr því fjármagni og til að geta mætt þörfum fleiri en hingað til og tekið inn þætti sem við höfum kannski ekki getað tekið inn hingað til þó að þeir séu reyndar vandséðir eins og er.

Um samanburðinn við Bretland verð ég að segja að þær breytingar sem fóru af stað í Bretlandi í kringum 1978 — við erum í rauninni á því stigi núna sem Bretar fóru í 1978 og svo leiddi það til þess um 1990 að kaupendur og veitendur voru aðskildir. Það voru allt aðrar aðstæður í Bretlandi þá en hér, það var miklu minna fé lagt í (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustu og þar var allt annað fyrirkomulag. Við erum ekki að fara þá leið.