135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:34]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Því hefur verið haldið fram að það sé mjög óljóst hvað felst í áliti mannréttindanefndarinnar. Ég tel það ekki óljóst. Það er sagt að ákvæðið um stjórn fiskveiða eins og við höfum það standist ekki jafnræðisreglur. Það er sagt að það sé algjörlega óeðlilegt að sjómenn sem vilja stunda fiskveiðar á Íslandsmiðum eigi að borga öðrum einstökum handhöfum fyrir þann rétt að fá að sækja sjó. Mér finnst ekkert skorta á skýrleikann í þessu eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði hér áðan.

Ég skynja hins vegar að vilja skortir hjá sjávarútvegsráðherra til að lagfæra þá aumu stöðu sem við erum í varðandi stjórn fiskveiða. Menn tala um að taka álitið alvarlega. Gott og vel. Vel kann að vera að það þurfi tíma. En mér finnst ekki að Alþingi hafi verið skýrt frá því hér í dag í hvað svarið stefni hjá hæstv. ráðherra eða hvernig eigi að vinna að málunum. Ég hef orðað það svo að svarið sem hæstv. sjávarútvegsráðherra gaf sé eitt af hinum margþættu svörum sjávarútvegsráðherra, sem ég með sjálfum mér er farinn að kalla EKG-svörin. Svör sem ég fæ sjaldan fest hönd á, því miður er erfitt að átta sig á því hvað í þeim felst.

Krafan sem kom frá mannréttindanefndinni er til stjórnvalda. Það er stjórnvalda að setja fram tillögur um það hvernig á að breyta. Nú eru 14 dagar eftir af þeim tíma sem stjórnvöld hafa til að svara mannréttindanefndinni.

Það er ekki viðunandi að Alþingi (Forseti hringir.) fái ekki að afgreiða tillögu, sem hér hefur komið fram, (Forseti hringir.) um það hvaða afstöðu þingmenn og þingheimur hefur til þessa máls. Það eru ekki lýðræðisleg (Forseti hringir.) vinnubrögð.