135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:36]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka mestan part málefnalega umræðu. Ég þarf ekki að undanskilja hv. þm. Grétar Mar Jónsson, hann er sjálfum sér líkur, vandi hans er sá að málflutningur hans er orðinn þannig að enginn tekur lengur mark á honum. Ég verð að segja eins og er að ég öðlaðist hugarró eftir að hafa hlustað á hann, mér virðist allt benda til þess að við séum á réttri braut með svarið sem við erum að fara að senda til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Það sem greinilega kom fram í þessari umræðu og ég held að skipti mjög miklu máli — og undirstriki það að mikill vilji er til að nálgast málið með svipuðum hætti og ríkisstjórnin leggur upp með — er að rauði þráðurinn í umræðunni er að langmestu leyti sá að við verðum að nálgast málið af mikilli gætni, af mikilli yfirvegun og með langtímahagsmuni og langtímamarkmið að leiðarljósi. Við erum hér að tala um grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar. Við erum að tala um gríðarlega hagsmuni sem geta haft mikil áhrif á lífskjör okkar. Við erum líka að kljást við mjög erfiðar spurningar sem mannréttindanefndin skildi eftir ósvaraðar og ætlaðist til að við brygðumst við með svörum sem við reynum nú að nálgast.

Ég er sannfærður um að það svar sem ég var hér að greina frá efnislega mun fullnægja þeim óskum sem mannréttindanefndin lagði fram. Eins og hv. þingmenn nefndu hér áðan munum við auðvitað leita eftir áliti mannréttindanefndarinnar á því.

Það er ekki rétt að þetta mál hafi ekki komið fyrir Alþingi. Það hefur gert það margoft eins og ég rakti í máli mínu og hv. þm. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar (Gripið fram í.)Alþingis greindi líka frá. Stóra málið og kjarni þess máls sem við erum hér að tala um felst í þeirri niðurstöðu að kærendum verða ekki greiddar skaðabætur og íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu verður ekki umbylt í einu vetfangi. Hins vegar er það boðað að efnt verði til gagngerrar skoðunar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu í náinni framtíð með breytingar í huga þannig að komið verði til móts við kröfur mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þessi viðbrögð verða kynnt mannréttindanefndinni og leitað viðbragða frá henni (Forseti hringir.) við framangreindu og hvort nóg sé að gert.