135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

efni og efnablöndur.

431. mál
[00:10]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og hv. formaður umhverfisnefndar gat um er ég með fyrirvara í þessu máli sem ég þarf að gera grein fyrir. Hann lýtur í fyrsta lagi að því að ekki hefur verið gerður stjórnskipulegur fyrirvari til þess að falla frá — ég kann nú ekki einu sinni að segja þetta. Ég horfði hér í augun á hv. þm. Bjarna Benediktssyni. Hann sagði þetta í ræðu fyrir tveimur dögum afar vel.

Þetta lýtur að 12. gr. þar sem í breytingartillöguskjali er gert ráð fyrir að ríkisstjórninni sé heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25 frá 14. mars 2008 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins. Þetta varðar þann stjórnskipulegan fyrirvara sem hefði þurft að vera búið að setja sem sjálfstætt mál í gegnum þingið en það hefur ekki verið gert í þessu tilfelli.

Og af því að ég hlustaði á hv. þm. Bjarna Benediktsson í gær eða fyrradag þegar hann gerði grein fyrir svipuðum fyrirvara þá þykir mér rétt að nefna þetta hér af því hvað það er alvarlegt hvað þetta gerist oft. Það er farið að færast í aukana hér að menn geri þetta með þessum hætti. Ég tel þetta vera allsendis óásættanlegt og að þetta hljóti að vera algjör undantekningartilvik. Ég ítreka það hér og lít þetta alvarlegum augum.

Fyrirvarar mínir við málið eru síðan þeir að REACH-tilskipunin er gríðarlega yfirgripsmikil. Það tók mörg ár að semja um hana á vettvangi Evrópusambandsins. Það gekk mjög illa vegna þess að framleiðendur og stórfyrirtæki voru mjög treg til að ganga nægilega langt að mati þeirra sem vildu ganga lengst í þágu umhverfisins. Málamiðlunin er að mati þeirrar sem hér stendur talsvert mikil. Málamiðlunin veldur vonbrigðum þegar maður fer að rýna í hana. Ég tel að það hefði þurft að ganga hér miklu lengra til þess að tryggt væri að náttúra og umhverfi væru vernduð fyrir þeim hættulegum efnum sem mál þetta fjallar um.

Bara markmiðssetning frumvarpsins felur í sér mótsögn. Markmið laganna er annars vegar að tryggja meðferð á efnum og efnablöndum og að meðferðin á þessum efnablöndum valdi ekki tjóni á heilsu manna og dýra eða á umhverfi. En hún á að tryggja um leið frjálst flæði af þessum sömu hættulegu efnum á markaði. Hér er um mótsögn í sjálfu sér að ræða. Ef við ætluðum í alvöru að tryggja umhverfi, heilsu manna og dýra þá ættum við að reyna að koma í veg fyrir að þessar efnablöndur verði notaðar.

En það er ekki svo með þessu frumvarpi, hæstv. forseti. Það þarf að ganga miklu lengra en hér er gert. Ég nefni sérstaklega 7. gr. Ég nefni t.d. að efni þau sem hér um ræðir þurfa ekki að lúta takmörkunum fyrr en þau eru flutt inn eða framleidd í meira magni en einu tonni á hvern framleiðanda eða hvern innflytjanda. Það er því gríðarlega mikið magn af 999 kílóum sem ekki þarf að skrá eða ekki þarf að tilkynna sem við vitum þá ekkert um. Ég tel því að hér hefði þurft að ganga svo miklu lengra. Þetta er þó skref í rétta átt og það er eins stórt og náðist samkomulag um. Samkomulagið var veruleg málamiðlun. Ég lýsi vonbrigðum með það en styð þó það skref sem stigið er.