135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:07]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir afar upplýsandi skýrslu um efnahagsmál sem hann flutti hér í dag og það frumkvæði að hafa þessa umræðu á fyrsta degi haustþingsins. Það er afar vel til fundið. Í skýrslunni fór ráðherrann vel yfir stöðu mála og útskýrði hvað gert hefur verið og það sem fram undan er í þessum málum eins og hægt er á þessari stundu. Það er deginum ljósara að staðan í efnahagsmálum hér á landi sem og í löndunum í kringum okkur er mjög alvarleg og við þurfum öll að taka á honum stóra okkar í sameiningu til að komast farsællega í gegnum þennan vanda. Við slíkar aðstæður er þess vegna svo mikilvægt að stjórnvöld fari ekki á taugum og hafi yfirsýn yfir verkefnin sem glíma þarf við.

Eins og forsætisráðherra rakti hér að framan eru yfirvegaðar og rétt tímasettar ákvarðanir mun vænlegri til árangurs en handahófskennd, vanhugsuð viðbrögð eins og stjórnarandstaðan hefur verið mjög iðin við að benda á. Markmið ríkisstjórnarinnar, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, eru mjög skýr og aðgerðirnar miða markvisst að þremur þáttum. Í fyrsta lagi að draga úr lausafjárerfiðleikum fjármálastofnana til skemmri tíma, í öðru lagi að auka fjármálalegan stöðugleika til frambúðar og í þriðja lagi að því langtímamarkmiði að skjóta traustum stoðum undir framtíðarhagvöxt.

Á fundi efnahags- og skattanefndar í morgun sem formaður nefndarinnar gerði ágætisskil fyrr í umræðunni — þetta var fundur með hagsmunaaðilum og sérfræðingum í efnahagsmálum víða úr samfélaginu — benti Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, m.a. á það, aðspurð um hvaða aðgerðir frá stjórnvöldum fjármálageirinn kallaði eftir, hversu mikilvægt er að horfa til langs tíma. Framtíðarhorfur okkar væru nefnilega öfundsverðar, eins og fram hefur komið í mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, við höfum yfir öflugum auðlindum að ráða, öfluga lífeyrissjóði, menntaða þjóð o.s.frv. og þess vegna þarf, að áliti Eddu Rósar, að passa upp á að skemma ekki þann árangur og þá stöðu. Ríkið þarf að hjálpa kerfinu við að hjálpa sér sjálft og það eru orð sem ég get svo sannarlega tekið undir. Þess vegna þarf að gæta þess að ríkið fari ekki af stað í einhverjar ómarkvissar, ótímabærar paníkaðgerðir sem hafa ekkert upp á sig nema að kæfa niður frumkvæði og kraft einkaframtaksins og þjóðarinnar allrar.

Maður hefði líka haldið að stjórnarandstaðan, sem hefur hrópað mjög hátt um aðgerðaleysi í allt sumar, hefði hlustað með athygli á hæstv. ráðherra flytja skýrslu sína hér í dag en miðað við málflutning hennar í umræðunni er líkt og menn hafi komið hingað vopnaðir heimaskrifuðum stílum sem alls ekki má breyta út af, fullum af upphrópunum, klisjum og ranghugmyndum þar sem eini tilgangurinn er að slá pólitískar keilur. Það virðist engin innstæða vera fyrir orðum um samvinnu og nauðsyn samstöðu við lausn vandans. Stundum held ég hreinlega að það sé yfir höfuð enginn áhugi fyrir því að leysa vandann.

Aðgerðaleysistalið er ein klisjan í sjálfu sér. Það þarf sterk bein til að standa af sér þá endalausu gagnrýni um aðgerðaleysi eins og dunið hefur á hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn á undanförnum vikum og mánuðum. Krafan um aðgerðir, bara einhverjar aðgerðir, hefur hljómað úr öllum áttum og er helst ætlast til þess að menn sveifli töfrasprota til að beita gegn þeirri tímabundnu niðursveiflu sem hagkerfi okkar sem og önnur vestræn hagkerfi eru að ganga í gegnum. Auðvitað eru engar slíkar brellur tiltækar og íslensk stjórnvöld vita það mætavel. Þess í stað er unnið stöðugt að lausn vandans með markvissum hætti eins og ráðherrann greindi frá.

Greiningardeild Glitnis gerir þetta aðgerðaleysi að umtalsefni í Morgunkorni sínu í dag. Fyrirsögnin er: „Aðgerðaleysi orðum aukið“ og þar segir, með leyfi forseta:

„Þegar litið er í baksýnisspegilinn kemur á daginn að stjórnvöld hafi vissulega brugðist við breyttum aðstæðum í hagkerfinu með ýmsum hætti undanfarna mánuði. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki nýtt að fullu heimild Alþingis til lántöku upp að 500 milljörðum kr. til að styrkja gjaldeyrisforðann hefur forðinn verið aukinn með útgáfu víxla í erlendri mynt í sumar. Þá hafa á síðustu mánuðum verið gefin út skuldabréf fyrir 75 milljarða kr.“

Síðan er fjallað áfram um nokkrar af þeim aðgerðum sem hér hafa verið til umræðu í dag og segir svo í lokin, með leyfi forseta:

„Þegar þetta er tínt saman kemur í ljós að stjórnvöld hafa vissulega brugðist við með ýmsum hætti undanfarna mánuði. Hins vegar er ótímabært að leggja hendur í skaut heldur þarf að halda áfram á sömu braut á næstu mánuðum í samvinnu við sem flesta aðila atvinnulífsins og vinnumarkaðar. Það verður því forvitnilegt að heyra það sem fer fram á þinginu í dag.“

Ég held að þarna sé mjög mikill samhljómur með því sem kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra og þeirra væntinga sem þessi markaðsaðili alla vega kemur á framfæri í pistli sínum.

Ég vona því að menn í þessum sal skipti um plötu á fóninum og hætti innstæðulausu aðgerðaleysissuði sem er ekkert annað en suð. Það gerir ekkert gagn og það leysir engan vanda. Ef maður fer aðeins inn fyrir klisjurnar og skoðar málflutninginn, hvert er þá inntakið í tillögum stjórnarandstöðunnar? Bæði formaður Framsóknarflokksins og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa talað fyrir auknum opinberum framkvæmdum sem úrræði til lausnar á vandanum sem við er að glíma en þeir hafa ekkert sérstaklega nefnt að opinberar framkvæmdir voru auknar svo um munaði í síðustu fjárlögum og eins í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar í þorskkvóta.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon blæs á allar hugmyndir um framleiðslu í þjóðfélaginu og kallar þær gamaldags, honum finnst bara frekar hallærislegt að við séum að framleiða eitthvað hérna. En hvaða lausnir býður hann upp á? Jú, hann er með millifærslur frá ríki til sveitarfélaga, sveiflujöfnunarsjóði og auknar opinberar framkvæmdir eins og ég sagði. Hvergi minntist þingmaðurinn á orðið „verðmætasköpun“, ég held hreinlega að það sé orð sem hann getur ekki tekið sér í munn. Honum er tamara að tala í klisjum, eins og um nýfrjálshyggjuheimskapítalisma — ég vona að ég fari rétt með — (Gripið fram í.) sem er svo sem ágætis steingrímska, við getum alveg fallist á það. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fór líka yfir tillögur þeirra. Allar lutu þær að aðkomu hins opinbera með einhverjum hætti, þar var aldrei um neina verðmætasköpun að ræða.

Það er stundum erfiðara að ráða í tillögur hv. þm. Guðna Ágústssonar. Hann vill lækka opinberar álögur — ég deili þeirri skoðun svona almennt með honum — og hann vill auknar framkvæmdir á sama tíma og hann vill draga úr útgjöldum ríkisins. Hann vildi fara inn í ESB í vor eða alla vega ræða það en núna er það bara alls ekki málið. En hann verður líka að gæta sín að fara rétt með staðreyndir og þá á ég ekki við það sem hann sagði um netið. Hann hamrar alltaf á því að krónan hafi lækkað um 40% frá áramótum, og ég tók eftir því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði það líka, að hún hafi fallið um 40% frá áramótum þegar hið rétta er 25%. Þetta er ekki til að bæta stöðuna erlendis þar sem nóg er af ranghugmyndum um íslenskt efnahagslíf.

Formennirnir hafa líka báðir lagt áherslu á að gjaldeyrisvaraforðinn verði efldur. Hæstv. forsætisráðherra fór vel yfir það sem verið væri að gera í þeim efnum og ég er að hugsa um að endurtaka það sem hann sagði þingmönnum til frekari glöggvunar vegna þess að ég held að þeir hafi ekki verið að hlusta. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Gjaldeyrisforðinn nam um 200 milljörðum króna í lok júní sl. Í júlí og ágúst var hann stækkaður í nokkrum áföngum og nam í lok ágúst um 300 milljörðum. Með hinu nýja láni ásamt með áðurnefndum gjaldeyrisskiptasamningum og lánalínum ríkissjóðs og Seðlabankans nemur forðinn nú jafnvirði rúmlega 500 milljarða króna. Á miðju ári 2006 var hann rúmlega 100 milljarðar króna á sambærilegu gengi. Gjaldeyrisforði okkar hefur því fimmfaldast á þessum stutta tíma og er nú hlutfallslega mun meiri en í flestum nágrannalöndum ef miðað er við landsframleiðslu.“

Bara svo þetta liggi fyrir og ég vona að þingmennirnir hafi hlustað núna.

Á fyrrnefndum fundi efnahags- og skattanefndar í morgun var einmitt farið yfir þessa stöðu og fundurinn var mjög fróðlegur. Það vakti athygli mína þar að hjá einum greiningaraðilanum kom fram að við ættum að líta til Sviss sem fyrirmyndar varðandi það hvernig tryggja skuli fjármálastöðugleika. Þeir eru eins og við lítil þjóð með hlutfallslega stórt fjármálakerfi þó svo að forskot þeirra sé augljóslega það að myntin þeirra gengur víðar en krónan okkar. Þessi aðili benti á að við ættum að fara að fordæmi þeirra varðandi stærð á gjaldeyrisforða, þar væri hann í kringum 20% af landsframleiðslu þeirra eða sem væri sambærilegt 300 milljarða kr. gjaldeyrisforða hér. Það er því ánægjulegt að heyra að forsætisráðherra greinir frá því að við erum komin vel yfir þann mælikvarða sem þessi aðili nefndi.

Virðulegi forseti. Eins og forsætisráðherra brýndi fyrir okkur áðan er mikilvægt að við stöndum saman. Það hljómar kannski klisjukennt en það er sannleiksgildi fólgið í gamla orðatiltækinu að hugurinn beri mann hálfa leið. Nú skulum við því öll taka höndum saman og vinna að lausn þessa vanda í sameiningu.