135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur ugglaust verið að leggja drög að þessari miklu samstöðu með ummælum sínum um stjórnarandstöðuna áðan. Hv. þingmaður varar við því að ríkið vaði út í ótímabærar taugaveiklunaraðgerðir eða framkvæmdir því það geti drepið niður frumkvæði og kraft einkaframtaksins. Þá má spyrja: Hvar hefur einkaframtakið á Íslandi verið að fjárfesta undanfarin ár? Er vandinn ekki m.a. sá að fjárfestingar Íslendinga á Íslandi hafa verið hverfandi undanfarin ár? Og þessu hafa menn mætt og vilja mæta áfram með því að halda uppi fjárfestingarstigi í hagkerfinu með risainnspýtingum erlendra aðila í formi stóriðjuframkvæmda. Er þetta falleg framtíðarsýn? Er ekki betra að skapa hér forsendur og aðstæður sem gera Íslendingum kleift að fjárfesta á Íslandi, svona til tilbreytingar? Og ætli það sé nú ekki viðráðanlegra og jafnara að gera það þannig?

Aðgerðaleysiskenningin. Það er greinilegt að þetta kemur mjög við og er sárt. En það eru ekki bara stjórnarandstæðingar sem hafa talað um þá hluti. Hæstv. forsætisráðherra gekkst sjálfur við henni 5. ágúst síðastliðinn og sagði að hún væri að skila árangri. Hann, með leyfi forseta, þ.e. forsætisráðherra, sagði að það sem ýmsir hafi kallað aðgerðaleysi hefði haft jákvæð áhrif. Þetta kalla ég aðgerðaleysiskenninguna í hagstjórn og vitna í forsætisráðherra sjálfan.

Að ég blási á allar hugmyndir bæði um framleiðslu og verðmætasköpun yfir höfuð. Er þetta nú ekki einum of ódýrt, hv. þingmaður, þó að ég skrifi ekki upp á það að allsherjarlausn á öllum vanda sé frekari álvæðing íslensks efnahagslífs en vilji þess í stað leggja áherslu á fjölbreytni, á nýsköpun? Í okkar tillögum er t.d. einmitt það að leggja núna áherslu á fjárfestingar í innviðum samfélagsins og leggja grunn að nýsköpunar- og uppbyggingarskrefi á fjölbreyttum forsendum. Auðvitað til þess að hér sé verðmætasköpun. En það er hægt að gera fleira, hv. þingmaður, en bara að falbjóða íslenska náttúru og íslenskar orkulindir á útsöluverði handa erlendum (Forseti hringir.) stórfyrirtækjum til að framleiða ál, bræða ál. Það eru fleiri möguleikar í stöðunni, (Forseti hringir.) hv. þingmaður.