135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:45]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu í dag en vil líka alveg sérstaklega þakka þá ræðu sem hér hefur verið flutt nú vegna þess að ég er um mjög margt sammála þeirri greiningu sem hér kemur fram á ástandinu og sammála því að erfiðleikar hagkerfis okkar eru að hluta til vegna þess að við höfum farið inn á þá óheillabraut að stýra gengi með vaxtastigi, með því í raun og veru að Seðlabankinn hefur verið leiðandi í, mér liggur við að segja, „gambli“ á alþjóðlegum mörkuðum með þessu móti.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann einmitt út frá þessum orðum hvort hann sé sammála þeim skilningi sem hér hefur komið fram oftar en einu sinni í ræðum stjórnarþingmanna að Seðlabankanum beri að halda sig við þá háu vexti og þá hávaxtastefnu sem hann rekur í dag varðandi stýrivextina. Eða er tímabært, líkt og við framsóknarmenn höfum lagt fram í tillögum okkar, reyndar núna í bráðum ár, að það sé stigið á þessa stefnu og horft til þess að lækka hér stýrivextina og samræma þá með því sem er í öðrum löndum?

Og í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þm. Illuga Gunnarsson hvort hann hafi einhverjar heimildir fyrir því að hin ágæta ríkisstjórn sem hann bar nokkurt lof á — ég veit ekki hvort það var að öllu leyti verðskuldað — sé að vinna að þessu. Það væri vissulega mikið fagnaðarefni, þá meina ég það verkefni að lækka stýrivextina.