135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[21:29]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vilja leggja sitt af mörkum fyrir sína hönd og stjórnarandstöðuflokkanna í þessu máli. Við munum ekki slá á þá hönd. En spursmálið er hvernig slíku verði fyrir komið. Við höfum komið á skipulögðu samráði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin á sérstökum vettvangi. Stjórnmálaflokkarnir á Alþingi hafa önnur tækifæri og aðra möguleika til að ráðgast og það er auðvitað gert reglulega. Ef þannig aðstæður koma upp að nauðsynlegt verði að allir flokkar komi að erfiðum málum verður að sjálfsögðu haft gott samráð við stjórnarandstöðuna um það þó að ekki sé hægt að ætlast til þess að stjórnarandstaðan hafi aðkomu að öllum málum sem þessu tengjast eða geti tekið á sig ábyrgðina á þeim öllum.

Varðandi síðan spurninguna um Þjóðhagsstofnun þá er það ekki á dagskrá að endurvekja hana eins og hv. þingmaður spurði um. Hún hefur runnið sitt skeið á enda og við verkefnum hennar tóku aðrir aðilar innan ríkiskerfisins. Hagstofan tók við mjög miklu af þeim verkefnum sem Þjóðhagsstofnun annaðist áður og sinnir þeim með miklum sóma. Það var að mörgu leyti eðlilegt að flytja þau verkefni þangað vegna þess að það hafði verið rætt um það í mörg ár að þar væri hugsanlega einhver tvíverknaður. Önnur verkefni fóru í fjármálaráðuneytið og svo má ekki gleyma því að ýmsir aðilar utan ríkiskerfisins, sérstaklega verkalýðshreyfingin en einnig vinnuveitendasamtökin, fengu sérstakar aukafjárveitingar árlega, viðbótarfjármagn til þess að sinna hagrannsóknum og gera þjóðhagsspár á sínum eigin vegum. Það er því búið að koma þessu öllu í allt annað horf en áður var og ég held að það sé ekki raunhæft að tala um að endurreisa Þjóðhagsstofnun eins og hv. þingmaður spurði um.