135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum.

[14:01]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég þakka svar hæstv. forsætisráðherra svo langt sem það nær og skil hann þá svo að hann telji ekki beina nauðsyn á því líkt og sumir stjórnarliðar töldu í gær að halda hér uppi háu vaxtastigi til að berja á ímyndaðri þenslu. Um hitt vil ég aðeins fá að ræða, þ.e. um stefnu okkar framsóknarmanna við gerð síðustu fjárlaga. Við töldum ekki efni til þess að þá væru fjárlögin hækkuð um 20%, enda líkt og margir stjórnarliðar bentu á í gær og reyndar menn úr báðum liðum, að atvinnuleysi er ekki orðið enn í landinu og það er ekki enn þá orðin sú staða að ríkisvaldið hefði raunverulega þurft að auka útgjöld á þessu ári en það er allt annað hver staðan verður á næsta ári og var raunar alveg fyrirséð með nokkrum fyrirvara að sú lægð sem nú leggst yfir væri á leiðinni. Ég vísa því þannig algerlega til föðurhúsanna að Framsóknarflokkurinn hafi fylgt eitthvað rangri stefnu heldur einmitt eins og bæði Seðlabankinn og fjölmargir greiningaraðilar bentu á, að ríkisstjórnin fór of geyst við síðustu fjárlagagerð.