135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra.

[10:36]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í maí sl. tókust kjarasamningar milli ríkis og sveitarfélaga og BSRB. Þá var ekki hægt að leiðrétta kjör kvenna og það var gagnrýnt hér mjög harkalega. Það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur gefið fyrirheit og loforð um að leiðrétta kjör kvenna sérstaklega. Hæstv. jafnréttisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur sagt að það muni reyna á stjórnarsáttmálann varðandi það að leiðrétta kjör kvenna, það verði að lyfta konunum upp án þess að karlarnir fylgi á eftir og þetta sé eitt brýnasta jafnréttismál samtímans. Þetta segir hæstv. jafnréttisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir.

En hver er staðan núna? Hv. þm. Ásta Möller kemur hér upp og segir: Þetta er ekki viðunandi, kjör ljósmæðra eru ekki viðunandi. Og það er rétt. En hvað segir hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen? Sá ráðherra segir: Það er ekki hægt að leiðrétta þessi kjör, efnahagsástandið er svo erfitt.

Þetta mál er komið í mjög erfiðan hnút og það er skollið á verkfall. Ég vil nýta tækifærið hér og skora á karlinn, hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesen, að hlusta á konurnar sem krefjast eðlilegra launabóta. Ég vil líka skora á karlinn, Árna Mathiesen, hæstv. fjármálaráðherra, að hlusta á konuna, hv. þm. Ástu Möller, í sama flokki sem segir að þetta sé ekki viðunandi. Ég skora líka á Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. ráðherra jafnréttismála, að fela sig ekki heldur stíga nú fram og taka þátt í þessari umræðu og þrýsta á hæstv. fjármálaráðherra að hjálpa til við að leiðrétta þessi kjör.

Nú er ekki tími til að fela sig, kæru konur, nú á að taka á því. Nú þarf að leiðrétta þessi kjör.