135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[11:37]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, hér er um nákvæmlega sama málið að ræða. Það er meðferð ráðherra á beitingu bráðabirgðalagaheimilda stjórnarskrárinnar. Það er það sem um er að ræða í þessu máli. Hæstv. iðnaðarráðherra stendur að fréttatilkynningu sem segir, með leyfi forseta:

„Í kjölfar frækilegs árangurs íslenska landsliðsins í handbolta og einstæðs afreks á Ólympíuleikunum í Peking hefur ríkisstjórnin ákveðið að styrkja Handknattleikssamband Íslands um 50 millj. kr.“

Nú hefur verið upplýst að ráðherrann hefur viðurkennt að ríkisstjórnin hefur ekki fjárveitingavald en hún talar eins og hún hafi það og segir þjóðinni að hún hafi ákveðið eitthvað.

Félagsmálaráðherra segir í fréttatilkynningu í sumar að ríkisstjórnin hafi á fundi sínum í sumar samþykkt að sinni tillögu að veita 5 milljarða kr. lánsfjárheimild til Íbúðalánasjóðs vegna leiguíbúða og hefur falið stjórn sjóðsins að hefja lánveitingar. — Að hefja lánveitingar, takk fyrir. Í svari sínu, sem dagsett er 1. september, við fyrirspurn minni segir ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins um þetta, með leyfi forseta:

Gert er ráð fyrir að aflað verði heimildar á lánsfjáraukalögum fyrir árið 2008.

Gert er ráð fyrir að aflað verði heimildar á fjáraukalögum 2008 fyrir 5 milljörðum kr. sem búið er að tilkynna að ríkisstjórnin hafi ákveðið að veita og hafi falið viðkomandi stofnun að hefja útgreiðslu fjárins.

Hvað er þetta, virðulegi forseti, annað en tilhneiging ríkisstjórnarinnar til þess að taka til sín vald Alþingis, gera lítið úr Alþingi en mikið úr sjálfu sér? Það er það sem er gagnrýnisvert og hæstv. ráðherra ætti að sjá sóma sinn í því að virða Alþingi sem ég þykist vita að honum er mjög í mun að verði gert.