135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir að taka undir þær áherslur mínar um mikilvægi samtryggingar og samhjálpar þegar náttúruvá ber að höndum og það að við Íslendingar höfum borið gæfu til að tryggja með lögum að réttur fólks, einstaklinga og hópa, sé sem best tryggður hvað það varðar. Það verður kannski seint gert alveg 100% en það er vilji held ég okkar allra að svo sé. Nóg hrín á fólki sem lendir í náttúruhamförum bæði andlega og líkamlega og þess vegna er mjög mikilvægt að tryggja því bætur.

Ég minntist á uppgjör eða mat vegna tjóns við jarðskjálftann árið 2000. Það má vel vera hvað varðar mál að það sé afgreitt af hálfu viðkomandi laga- og reglugerðarhafa sem fara með það. En ég þekki dæmi þar sem fólk hefur að minnsta kosti verið mjög óánægt með það í ákveðnum tilvikum hvernig að sú niðurstaða var þó vel geti verið að þeim sé lagalega lokið. Það undirstrikar áherslur mínar að lögin séu sem skýrust og að réttur einstaklingsins sé sem öruggastur og bestur og tryggður þannig að sem fæst vafamál komi upp (Forseti hringir.) og viðkomandi fái sanngjarnar bætur.