135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

síðari för menntamálaráðherra á Ólympíuleikana.

[13:46]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég svara þessum spurningum með ánægju en það eru náttúrlega villandi upplýsingar í þessu eins og ýmsu sem kemur frá hv. þingmanni. Það er rétt að geta þess eins og alþjóð veit að ég hefði tekið þá ákvörðun aftur ef ég stæði frammi fyrir því að íslenska landsliðið í handbolta væri að leika um gullverðlaun á Ólympíuleikunum, ég mundi taka hana aftur sem ábyrgðarmaður íþróttamála og fara á Ólympíuleikana þannig að það sé alveg skýrt, enda um einstakan viðburð að ræða. Við fórum þrjú út. Það hafa aldrei verið greiddir dagpeningar til maka ráðherra svo ég viti til og aldrei nokkurn tíma meðan ég hef verið ráðherra.

Hins vegar er það alveg rétt að í hvert skipti sem svona ákvarðanir eru teknar varðandi útgjöld ríkisins, seinni ferðin kostaði um 1,8 millj., þarf alltaf að hafa varann á. Það þarf alltaf að spyrja sig: Er rétt eða rangt að gera þetta?

Ég mat það svo og segi það enn og aftur að það hafi verið afar mikilvægt og þýðingarmikið að ábyrgðarmaður íþróttamála færi á þennan mikilvægasta íþróttaviðburð í íslenskri sögu. Alveg eins og ég tók ákvörðun um það á sínum tíma í tengslum við heimkomu strákanna okkar að leggja út í ríkisútgjöld vegna heimkomu þeirra. Það er alveg ljóst hvað sú viðhöfn kostaði öll sem við skipulögðum í mikilli og góðri samvinnu við Reykjavíkurborg, við fjölmiðlana, við lögregluna, íþróttahreyfinguna og fleiri. Þetta er allt saman ákvörðun sem ég stend við og ég mundi taka slíka ákvörðun aftur. Enda tók þjóðin á móti strákunum okkar með reisn. En ég viðurkenni það alveg að ég ákvað að eyða ríkisfjármunum í þessa heimkomu og ég mundi taka þá ákvörðun aftur. Þetta er á ábyrgð ráðherra og ég stend við þessar ákvarðanir.