135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:13]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að heyra að hv. þm. Þuríður Backman, heilbrigðismenntaður þingmaður, dragi ekki fagmennsku sjálfstætt starfandi lækna í efa. En hún gerði það samt — ef ske kynni að hvatinn til að auðgast væri fyrir hendi. (Gripið fram í.) Hv. þm. Þuríður Backman kom líka inn á það að stjórnunarkostnaður hins opinbera væri lægri en í einkafyrirtækjum. Þetta er eiginlega eins og besti brandari, (Gripið fram í.) hæstv. forseti. Yfirleitt er það nú þannig — og Heilsugæslan í Reykjavík er gleggsta dæmið um stjórnunarapparat af stærstu gerð, Heilsugæslan í Reykjavík sem er með eitthvert stærsta stjórnunarteymi á Íslandi, hv. þm. Þuríður Backman. (Gripið fram í.)

Stjórnunarteymið í Heilsugæslunni í Salahverfi er mun minna en stjórnunarteymi Heilsugæslunnar í Reykjavík. (ÁI: Minnsta heilsugæslan á svæðinu.)Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir verður stundum að sætta sig við að ekki eru allir sammála og stundum þarf að vega og meta það sem maður segir þegar maður segir það. Ef ég ætlaði nú eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ætíð að bera af mér sakir við frammíköll þá geri ég það ekki en ég var að svara hv. þm. Þuríði Backman og ég tel að stjórnunarkostnaður hins opinbera sé ekki lægri. Hann er hins vegar mun óskilvirkari. Það hefur sýnt sig hvar sem er í opinberri þjónustu. Ríkisreksturinn er bágborinn á Íslandi og því þarf að breyta. Það eru engin heilög sannindi sem hér eru sögð. Það er bara þannig.

Ég hef hins vegar ekki, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) lengri tíma og orð mín verða ekki fleiri.