135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[21:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég held að þessi umræða sýni og hún mun örugglega gera það hvað mig varðar, að það er naumt skammtað samkvæmt nýju þingsköpunum. Það er heldur aumt að fá 15 mínútur og síðan 5 mínútur til að ræða þetta stóra mál við 3. umr. og fá þær tilkynningar að nýju þingsköpin beri að túlka þannig að þingflokkar geti ekki nýtt sér rétt sinn til tvöföldunar umræðu nema við 2. umr. Þannig er nú gefið á garðann í þessu.

Íslenska heilbrigðiskerfið er í grunninn mjög gott. Það hafa margir sagt hér í dag. Líka aðstandendur þessa frumvarps. Og þá væri auðvitað nærtækast að spyrja í byrjun: Má það þá ekki að vera í friði, svona í aðalatriðum? Hvers vegna þarf að fara í þennan leiðangur ef íslenska heilbrigðiskerfið er gott? Er það ekki bara á heimsvísu eins og stendur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?

Og það er talað um það hér eins og stórtíðindi að ríkisstjórnin vilji að á Íslandi sé veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða. Nema hvað? Datt mönnum eitthvað annað í hug? Þarf að setja það á blað í stjórnarsáttmála? Vitum við Íslendingar það ekki vel að við eigum eitt allra besta heilbrigðiskerfi í heimi og deilum því með frændum okkar á hinum Norðurlöndunum og nokkrum öðrum þjóðum, t.d. Kanada og Hollandi, sem hafa valið einmitt sömu leið varðandi grunnuppbyggingu heilbrigðisþjónustu sinnar. Að hún sé kostuð af skattfé. Hún sé í aðalatriðum opinberlega rekin, á ábyrgð hins opinbera og veiti öllum jafna þjónustu eftir því sem framast er kostur.

Það er ekki mikið deilt um það í heilbrigðisumræðum í heiminum að þetta módel hefur algera yfirburði. Þegar Alþjóðaheilbrigðisstofnunin er að veita ráðgjöf í þróunarríkjum, hvert bendir hún? Til Norðurlandanna. Og það vel að merkja ekki endilega til Svíþjóðar í dag heldur þess heilbrigðiskerfis sem Norðurlöndin höfðu byggt upp í góðum jafnaðarstefnuanda en eru kannski sum á hlaupum frá núna, því miður.

Það er alveg sama hvernig menn reyna að halda öðru fram. Sá andi sem svífur yfir vötnum þessa frumvarps er andi markaðsvæðingar og einkareksturs. Hann er líka á bak við í stjórnarsáttmálanum þar sem talað er um mikilvægi fjölbreytilegra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum á þjónustusamningum o.s.frv. Það er vissulega tekið fram að síðan eigi að tryggja að allir hafi jafnan aðgang. Og ég segi aftur, nema hvað? Hér hafa þingmenn Samfylkingarinnar, varaformaður Samfylkingarinnar, komið upp og talað um að það séu stórtíðindi að það eigi ekki að fara að mismuna. Datt mönnum eitthvað annað í hug? Ég held að það beri hins vegar vott um að mönnum er kannski órótt inni í sér að þeir skuli þurfa að koma hér upp aftur og aftur og segja að heilbrigðisþjónustan eigi áfram að vera góð og hún eigi áfram að vera fyrir alla og það standi ekki til að fara að mismuna. Af hverju þarf að taka það fram? Hvarflaði eitthvað annað að mönnum? Getur verið að það sé vegna þess að þeir eru í mikilli vörn með þetta frumvarp? Og þeir vita hver hugmyndafræðin er á bak við það. Auðvitað vita þeir það. Í stefnuyfirlýsingu heilbrigðisráðherra frá því í febrúar andar af hverri síðu hugsuninni um fjölbreytileg rekstrarform í heilbrigðisþjónustu. Stefnumótun um eignarhald og yfirstjórn heilbrigðisstofnana. Það er þá sem sagt ekki sjálfgefið. Skipulag og rekstrarform. Aukið samræmi í fjármögnun ólíkra rekstrarforma o.s.frv. Þurfa menn einhverra vitnanna við? Hafa menn ekki nennt að lesa ályktanir síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins? Muna menn ekki áhersluna sem þar var lögð á að nú yrði Sjálfstæðisflokkurinn að fá heilbrigðisráðuneytið til að hann gæti farið að taka til hendinni. Það var nánast bara úrslitakrafa og aðalályktun síðasta, nema ef það skyldi vera næstsíðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins.

Svo vitna menn í margt hið góða í þessu frumvarpi sem auðvitað er því í grunninn er margt í því sem er úr gildandi löggjöf okkar í þessum efnum. En það ber að hyggja mjög vel að því út í hvaða leiðangur menn eru að fara og hvaða svigrúm og valdheimildir lagasetning af þessu tagi færir síðan til pólitískra áherslna og útfærslu og stefnumótunar. Og þar verð ég að segja að ég held að það sé leitun á frumvarpi sem er mér liggur við að segja lævíslega saumað utan um það að um leið og ráðherrann er búinn að fá þetta í sínar hendur getur hann meira og minna gert það sem honum sýnist hvað varðar skipulag þjónustunnar, rekstrarform hennar og það hverjum er falið að veita hana.

Það er talað hér um það að heilbrigðisráðherra marki stefnu innan ramma þessara laga. Hvers vegna er það sérstaklega tekið fram? Er það yfirleitt tekið fram í faglöggjöf sem heyrir undir einhvern ráðherra? Nei, yfirleitt ekki. Það er oftast sagt að málaflokkurinn heyri undir ráðherra. Og þá fer það samkvæmt hefðum og venjum hvernig með það er farið innan stjórnsýslunnar en það er ekki sjálfstætt pósitíft valdaframsal til ráðherrans um pólitíska stefnumótun enda á hún ekki að gerast á þeim forsendum. Það er eitthvað sem menn semja um í stjórnarsáttmála. Það er eitthvað sem flokkar móta hjá sér. Svo koma þeir að völdum eftir atvikum og starfa á grundvelli laga og þess ramma sem þar er settur. Hér er verið að gera annað. Það er verið að lögtaka, ef af verður, alveg sérstaka pósitífa stefnumótunarheimild fyrir ráðherra. Hún gengur síðan aftur, t.d. í 40. gr. þar sem segir:

Samningar um heilbrigðisþjónustu skulu gerðir í samræmi við stefnumörkun samkvæmt 2. gr., m.a. um skipulag, forgangsröðun verkefna, hagkvæmni þjónustunnar og allt þetta. Með öðrum orðum, framkvæmdaraðilinn verður síðan að taka mið af hinum lögvarða rétti ráðherrans til pólitískrar stefnumótunar í málaflokknum.

Hvað getur þetta þýtt á mannamáli? Segjum nú bara svo að einhver heilbrigðisráðherra fái þá flugu í höfuðið að á næstu þremur árum skuli bjóða alla heilsugæslu í landinu út? Það er orðin stefna hans. Hann vísar í 2. gr. Hann vísar í 40 gr. og sjúkratryggingastofnuninni ber að fara að því. Það er þar með orðin lögbundin pólitísk stefna sem á að gilda í framkvæmdinni.

Þarna held ég að sé verið að fara inn á mjög hættulega braut og það eigi ekki að búa svona um þessa hluti í lögum. Þarna eiga bara að gilda grunnskilgreiningar laganna og það á ekki að vera með framsal af þessu tagi til pólitískrar stefnumótunar inn í málaflokkinn sem aðrir aðilar eru síðan lögskyldaðir til þess að framkvæma.

Það eru þarna ákvæði sem að mínu mati eru algerlega óásættanleg eins og frá þeim er gengið í þessu frumvarpi, vissulega að nokkru leyti sagt og skoðað í ljósi þeirra pólitísku áherslna sem t.d. núverandi heilbrigðisráðherra og flokkur hans fara með.

Hér hafa menn rætt talsvert um fordæmi frá Noregi og Bretlandi og Svíþjóð og ég hef gjarnan bent mönnum á að skoða aðeins Nýja-Sjáland og fleiri lönd sem mikið mætti læra af og ekki endilega dæmin um það hvernig rétt sé að gera hlutina. Í skýrslu sinni fyrir nokkrum árum tók Ríkisendurskoðun m.a. Nýja-Sjáland fyrir og gaf því nú ekki háa einkunn sem þar hefði verið gert í anda nýfrjálshyggjunnar.

En við skulum muna eftir einu þegar við berum Ísland saman við þó það sé ekki nema Svíþjóð hvað þá 60 milljóna Bretland, að við erum hérna 317 þúsund. Og við þurfum auðvitað að hugsa þessa hluti dálítið út frá því hvernig við sem erum svona lítil eining náum best utan um viðfangsefni af þessu tagi, af því að við höfum metnað til þess að vera með fyrsta flokks þjónustu, á heimsmælikvarða eins og þar stendur, og við viljum væntanlega gjarnan að sem allra mest af sérhæfðri læknisþjónustu sé í boði hér á landi.

Því nefndi ég nú hjartaskurðlækningarnar að ég þekki það vel af mínum högum og persónulega hversu rosalega erfiðir þeir tímar voru þegar allir þurftu að fara úr landi til að fá þá þjónustu og bíða upp á von og óvon, fyrst í Gautaborg og síðan í Kaupmannahöfn, um það hvort þeir lifðu biðina af, og allt það sem það þýddi fyrir viðkomandi fjölskyldur o.s.frv. Það að ná að gera þetta sem mest hér heima og að þessi góða þjónusta sé hér í boði er því gríðarlega dýrmætt, og hvernig getum við þá best gert það? Með því að dreifa ekki kröftunum. Með því að standa vörð um stórar öflugar stofnanir og ekki síst flaggskipið okkar, Landspítalann.

Það er „den rene galne vanvid“ eins og sagt væri á dönsku ef Ísland, þessi litla eining, fari að taka tugmilljónaþjóða fordæmi í því að dreifa kröftunum og trúa á samkeppni og valkosti og guð má vita hvað þegar vandamálið í mörgum tilvikum er að við erum alveg í fæsta lagi til þess að ein eining í landinu geti boðið upp á viðkomandi þjónustu. Það er ekkert annað en aukinn kostnaður og óskilvirkni að taka þá áhættu að mola heilbrigðisþjónustuna í sundur og byrja að leysa hana upp og veikja þar með kjölfestuna sem fólgin er í stóru og öflugu opinberu stofnunum sem við eigum og þurfum að standa vörð um. Stofnanir eins og Landspítali – háskólasjúkrahús, sjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæslukerfið sem þar er til fyrirmyndar nánast á allan hátt, leyfi ég mér að fullyrða, og auðvitað mikilvægar landshlutastofnanir eins og heilbrigðisstofnun Austurlands, Þingeyinga, fyrir vestan og stofnanirnar hér á suðvesturhorninu, að sjálfsögðu. Þannig að hér á að stíga varlega til jarðar.

Hér hefur eðlilega nokkuð verið rætt um þá markaðsvæðingu, einkavæðingu sem þarna er á ferðinni. Og ég vil bara leggja á það áherslu að af okkar hálfu er hin stóra víglína í því máli hvort menn hleypa einkarekstri sem er í ágóðaskyni, sem er rekinn til þess að draga arð út úr starfseminni, inn í kerfið. Þá erum við komin inn í alveg nýja hluti. Það skipulag sem hér hefur þróast, sumpart af sögulegum ástæðum að öflugar sjálfseignarstofnanir og félagasamtök hafa lyft grettistaki á mörgum sviðum í sambandi við hjúkrunar- og dvalarheimili, í sambandi við endurhæfingu og fleira í þeim dúr, það er inngróinn hluti í okkar ágæta heildstæða kerfi og er enginn að amast við því og ég vísa því algjörlega til föðurhúsanna að í málflutningi okkar sé fólgin einhver andstaða við það.

Enda má segja að í raun og veru hafi það verið framlengdur armur hins opinbera út í þessa uppbyggingu sem á sér sögulegar ástæður af ýmsu móti vegna þess að menn vildu gera betur en kannski hafði tekist að gera af vanefnum á hinni öldinni og menn bundust þar af leiðandi samtökum og réðust í átök og söfnuðu peningum og gáfu inn í kerfið. Það var nú ekki sá tíminn þá að menn væru farnir að hugsa um að græða á því og draga út úr því peninga þegar menn í sjálfboðavinnu meira og minna byggðu berklahælin og gáfu stórfé og létu þessar stofnanir erfa sig o.s.frv. Má ég þá frekar biðja um það hugarfar heldur en það sem svífur hér yfir vötnunum, að mikilvægasti kjarni heilbrigðisþjónustunnar og velferðarkerfisins í landinu eigi fyrst og fremst að verða matarhola til þess að græða á. Það finnst mér ekki geðfelldur hugsunarháttur. Það segi ég bara hreint út af því það eru vissir hlutir sem á að nálgast með öðrum hætti en þeim einum að hafa glýju mammons í augunum.

Ágóðaþátturinn inni í þessu er þarna og því munu menn ekki komast hjá. Við þekkjum af rannsóknum hvernig þetta ferli hefur verið þar sem menn leggja af stað án þess að segja söguna alla, ekki einu sinni hálfa, þessu er lætt af stað sem tæknilegum breytingum, lagfæringum, við þurfum að kostnaðargreina og reikna þetta út. Og hvar getur svoleiðis leiðangur endað og í hvaða átt stefnir hann? Ég held að þeir sem hafa engar efasemdir ættu að byrja á því að fara og sjá kvikmynd Michaels Moores um bandaríska heilbrigðiskerfið og samanburð á því og því sem best gerist á Norðurlöndunum, í Kanada og annars staðar. Lesa svo kannski þær ágætu skýrslur og greinargerðir sem hér eru birtar sem fylgiskjöl. Það er annars orðið undarlegt þegar amast er sérstaklega við því að hér séu dregin fram álit fræðimanna sem hafa annað mat á hlutunum en aðstandendur tiltekins frumvarps. Ég hef bara varla heyrt aðra eins umræðu eins og hér kom fram á köflum hjá ákveðnum þingmanni í dag út af því.

Má þá ekki ræða þetta nema með tiltekin gleraugu á nefinu? Er óheimilt að vera talsmaður annarra sjónarmiða en þeirra sem þóknast meiri hlutanum? Ég veit ekki hvar heimurinn er kominn ef menn ætla að fara að takast á um pólitísk álitamál og deiluefni með því hugarfari. Eru einhverjar launhelgar hér? Eða er það kannski það sem er að pirra, sérstaklega suma þingmenn Sjálfstæðisflokksins hér í dag og jafnvel suma samfylkingarmenn, að tjöldin eru að falla, að feluleikurinn hefur afhjúpast, að það er loksins að dragast fram í dagsljósið og vonandi að komast út í þjóðfélagið hvað hér er raunverulega á ferðinni og upp í hvaða leiðangur er raunverulega verið að leggja?

Og má ég svo að lokum, frú forseti, undrast mikla fjarveru hæstv. heilbrigðisráðherra hér. Ég hef ekki séð hann undir síðari hluta umræðunnar. Ég hefði haft hug á því að eiga við hann svolítil orðaskipti en ég verð að geyma það þangað til ég tek ef til vill aftur til máls þó að ræðutími minn verði þá nokkuð skorinn við nögl eins og kunnugt er. (Gripið fram í.) Það er gaman að sjá hæstv. ráðherra. Það gleður mig mjög að sjá hans ásjónu hér í hliðardyrum og ég skal þá eiga við hann orðastað aftur á seinni stigum.